Útfærsla togveiðilandhelginnar

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:00:00 (1005)

     Flm. (Magnús Jónsson) :
     Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um útfærslu togveiðilandhelginnar á þskj. 120 sem hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að skipa nefnd til að gera tillögur um útfærslu togveiðilandhelginnar umhverfis Ísland.`` Í grg. með tillögunni segir m.a. svo:
    Engum blandast hugur um að nú horfir ískyggilega í sjávarútvegi á Íslandi. Niðurskurður á aflaheimildum og minnkandi stofn, svo og misheppnað klak þorskstofnsins ár eftir ár án þess að á því séu viðhlítandi skýringar, kallar á skoðun annarra þátta en hingað til. Þorskveiði á grunnslóð er víðast sáralítil, jafnvel á miðum sem hingað til hafa verið talin meðal þeirra gjöfulustu, svo sem í kringum Vestmannaeyjar. --- Er þar skemmst að minnast að þann dag sem þáltill. var lögð fram á þinginu bárust fregnir af því að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefði gert tillögu um útfærslu á landhelginni í kringum Vestmannaeyjar í þrjár sjómílur.
    Í mínum huga er ljóst að aðalmarkmið kvótakerfisins, sem komið var á 1983, hefur ekki náðst þ.e. að byggja upp fiskstofna og draga úr sókn á miðin. Allan þann tíma, sem kvótakerfið hefur verið í gildi, hefur stefnt í öfuga átt hvað varðar uppbyggingu fiskstofnanna. Álagið á miðin hefur heldur ekki minnkað. Að mínu mati hefur það alls ekki vaxið þó að smábátarnir hafi tekið meiri fisk úr sjónum, því að enn þá er veiði smábáta ekki nema í kringum 14% af heildarþorskaflanum, eða var það á síðasta ári, en hins vegar hefur afkastageta stóru skipanna vaxið stórkostlega. Eftir breytingar, sem gerðar voru á kvótalögunum á síðasta þingi, stefnir nú hraðbyri í að allar veiðar í atvinnuskyni við Ísland verði stundaðar af stærri skipum, aðallega togskipum, og aðrar veiðar leggist af. Mjög sterk rök má færa fyrir því að tilverugrundvöllur margra sjávarplássa á landinu sé þannig brostinn með tilheyrandi eignaupptöku eða stórfelldari bjargráðum af hálfu hins opinbera

en nokkru sinni hafa sést hérlendis.
    Þegar Íslendingar stóðu í baráttu fyrir útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur og síðar í 50 og 200 mílur var sú barátta ekki aðeins til að minnka sókn útlendinga á Íslandsmið heldur einnig og ekki síður að flytja togveiðar þeirra lengra frá landi eða eins og þá var sagt að ,,losna við ryksuguskipin út úr kálgörðunum``. Nú eigum við skip sem eru mörgum sinnum afkastameiri en fyrrnefndir ryksugutogarar og ég verð að segja það að ég hefði ekki trúað því fyrir 30 árum að hið háa Alþingi Íslendinga væri búið að samþykkja lög sem væru á góðri leið með að leggja af allar veiðar nema á stærri skipum og þá einna helst togskipum.
    Það er alveg ljóst að miðað við þá þróun sem núna er, þar sem þegar á þessu ári er búið að selja 300 smábáta, sem allir hafa verið keyptir eða aflaheimildir þeirra hafa verið keyptar af frystiskipunum og stóru togurunum, þurfa ekki að líða ýkjamörg missiri þar til að smábátaútgerð á Íslandi hefur lagst af. Ég held að við stöndum þá frammi fyrir, eins og ég sagði áðan, mun stærri vandamálum en við höfum nokkru sinni staðið frammi fyrir í byggðamálum og þykir þó mörgum nóg um.
    Allt frá því að land byggðist hafa verið stundaðar krókaveiðar hér við land án annarra takmarkana en náttúran ein setur. Frelsi til slíkra veiða er því að mínu mati einn af hornsteinum þjóðmenningar okkar og ber að varðveita hana svo lengi sem þess er nokkur kostur. Veiðar með línu og færi byggjast á allt öðrum forsendum en aðrar veiðiaðferðir. Þær geta hvorki ofveitt né spillt náttúru eins og við sjáum því miður dæmi um að önnur veiðarfæri geta gert.
    Hér hafa verið rakin nokkur rök fyrir því að ég flyt þessa till. en ýmislegt er þó hægt að skoða fleira í þessu sambandi. Mjög skiptar skoðanir eru meðal fiskifræðinga á áhrifum veiða úr einstökum stofnum og viðgang þeirra. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma enda hef ég ekki þekkingarforsendur til þess. En hjá því verður ekki komist að setja fram nokkrar spurningar í því sambandi. Hvernig stendur á því að nýliðun í þorski er þeim mun minni sem hrygningarstofninn er stærri? Hvernig stendur á því að minna veiðist af stórþorski eftir að farið var að friða smáfisk? Hvort sem sú friðun er meira í orði en á borði því að ýmsir telja að enn þá sé mikið veitt af smáfiski en ég ætla ekki að vera með neinar getgátur í því sambandi. Þar sem hrognafjöldi í 50--100 þorskum mundi duga til að byggja upp eins og 300.000 tonna afla af þriggja kílóa fiskum finnst mér afar ólíklegt að takmarkalausar krókaveiðar við Ísland geti haft nokkur áhrif á það fiskmagn sem í sjónum er. Nema þá helst til bóta því að fiskur tekur beitu þegar of lítið er af æti og einnig ef fiskarnir eru of margir miðað við ætisframboðið. Ættum við ekki, á meðan jafnskiptar skoðanir eru um þetta mál að gera tilraun með því að leyfa alfrjálsar krókaveiðar í einhver ár, tvö eða þrjú ár?
    Einn algengasti ,,frasi`` eða orðaleppur, sem ég vil leyfa mér að þýða svo á íslensku, sem notaður er í umræðum um fiskveiðar nú á dögum er að nauðsynlegt sé að laga stærð fiskveiðiflotans að ,,afrakstursgetu`` miðanna. Hér er talað eins og afrakstursgeta miðanna sé einhver vel þekkt stærð, svona eins og lengd sólarhringsins eða stærð landsins. En ég held að flestum beri saman um að slíkt er gríðarlega ónákvæm stærð. Menn greinir að vísu á um það hversu miklu munar en hundruð prósenta til eða frá hafa verið nefnd í mín eyru. Ég skal ekkert segja um það hversu mikil skekkja er í því en það er alla vega miklu meira en sem svarar afla smærri báta á Íslandsmiðum á þessum árum.
    En í sambandi við fiskveiðistjórnunina eru líka ýmis önnur atriði sem hið háa Alþingi verður að taka afstöðu til. Hvert stefnum við ef aðeins er horft á þrönga hagræðingu í sjávarútvegi? Er það endilega þjóðhagslega hagkvæmt að 50 frystitogarar og annað eins af nótabátum sjái um allar fiskveiðar við Ísland í framtíðinni? Það er ljóst að miðað við afkastagetu nýjustu fiskiskipanna mundum við ekki þurfa meira ef við gefum okkur það að þessi afrakstursgeta miðanna sé einhver ákveðin stærð svipuð því sem nú er talið. Er það ekki einnig afar hagkvæmt, svo við tökum annað öfgafullt dæmi, að svo sem eins og hundrað 2.500 manna blokkaríbúðir mundu duga fyrir okkur Íslendinga til að búa í hér á suðvesturhorninu? Eða er það endilega hagkvæmt þegar 1.000 millj. kr. frystitogari leggur úr höfn í fyrsta sinn að þá er búið að úrelda vel nothæft afkastaminna skip, búið er að kaupa 25 smábáta og þar með gera kannski 50--100 manns atvinnulausa? Það er búið að úrelda frystihúsið á staðnum, gera fólkið sem þar vinnur líka atvinnulaust og það er búið að úrelda íbúðir alls þess fólks sem þar býr vegna þess að það hefur auðvitað ekkert við að vera þegar staðið frammi fyrir því að ekki er möguleiki á að fara á sjó þegar þessi þróun er hefur runnið sitt skeið á enda.
    Til þess að bæta svo gráu ofan á svart er Fiskveiðasjóður á þessu ári að lána 2000 millj. sem er í kringum 80% af því sem hann ætlar sér að lána til að kaupa fjóra frystitogara, þrjá stóra frystitogara og eitt heldur minna skip sem reiknað er með að verði breytt í frystitogara. Af því að ég veit að í salnum eru ýmsir sem hafa áhuga á laxveiðum get ég ekki stillt mig um að spyrja hvort ekki sé hagkvæmara að veiða allan lax sem gengur í íslenskar ár með nót en vera að þessu sargi með flugu eða maðki og einum öngli. Ég hef sjálfur tekið þátt í, ég get sagt það núna af því að það er fyrnd sök, að kasta smásíldarnót fyrir framan árós norður í Skagafirði fyrir um það bil 25 árum. Í þessu eina kasti fékk ég örugglega meira en það sem menn eru að sarga í ánum í heilan mánuð við að ná í. Með sömu röksemdafærslu og Kristján Ragnarsson notar núna gegn krókaveiðibátunum tel ég alveg einsýnt að takmarka ætti eða banna helst stangaveiði vegna þess að hún er svo óhagkvæm og snúa sér alfarið að nótaveiðinni.
    Ég er eins og komið hefur fram eindreginn stuðningsmaður þess að við leyfum frjálsar krókaveiðar af ýmsum átæðum. Ég tel raunar fyrir utan að þær eru undirstaða byggðar í landinu, þ.e. undirstaða byggðar er að ekki leggist af veiðar á stórum svæðum, séu krókaveiðarnar þannig að þær geti hreinlega stuðlað að jafnvægi í náttúrunni og að banna eða takmarka slíkar veiðar vegna þeirrar gríðarlegu tækni sem við ráðum orðið yfir til þess að slátra fiski tel ég álíka gáfulegt og aðaláhersla risaveldanna, sem núna keppast við að semja um niðurskurð á kjarnorkutólum sínum, beindist að því að reyna að fækka rifflum.
    Ég hef margsagt að þetta er í mínum huga langstærsta byggðamálið sem við þurfum að takast á við núna. Þar finnst mér samgöngur og önnur óumdeilanlega mikilvæg byggðamál koma á eftir. Við á Íslandi erum ekkert einir um þessa skoðun. Í Kanada þar sem hinar dreifðu byggðir byggja afkomu sína á fiskveiðum eru menn að vísa stórskipum út í hafsauga og telja það vera grundvöll þess að halda þessum svæðum í byggð. Þar eru menn að átta sig á að ekki er eingöngu hægt að líta á skammtímaarðsemi ryksuguskipanna, svo að ég noti það orð enn einu sinni, og það er tímabært fyrir okkur að gera það líka.
    Þar sem ég held að ég sé eini maðurinn hér inni, sem hef atvinnu af spámennsku, finnst mér ég eiginlega hafa sérstakan rétt á að spá svolítið í framtíðina í fiskveiðunum. Ég þykist sjá að stöðugt bættar samgöngur innan lands og milli Íslands og annarra landa svo og Evrópusamningarnir, sem við erum núna að ganga inn í ef að líkum lætur, bjóði upp á allt aðra möguleika en hingað til hafa verið til staðar. Nú erum við að bjóða svokallaðan ferskfisk til sölu á erlendum mörkuðum úr gámum eða skipum sem sjaldan er minna en viku gamall. Það er komið í ljós að algengast er að hann sé á bilinu 10--18 daga gamall. Ég spyr ykkur hv. alþm: Er það í ykkar munni matur að borða 10--18 daga gamlan ferskfisk? Ég mundi ekki bjóða kettinum mínum slíkan mat nema mér væri sérstaklega illa við hann. Það getur vel verið að meðal ýmissa þjóða sé þetta ferskfiskur og auðvitað verður að anna því ef nauðsynlegt er að komin sé ,,góð`` lykt af fiski áður en hann er boðinn upp. Ég held að í framtíðinni verði fiskur annars vegar hálfunninn og frystur úti á sjó eins og nú er gert, enda er það afbragðs matur, en hins vegar verði meira farið út í að koma ekki að landi með öllu eldri en 3--4 daga gamlan fisk. Það verða smærri bátarnir sem leika þar að mínu mati aðalhlutverkið. Ef það gerðist að fiskur, kannski ekki mikið eldri en 3--4 daga gamall kæmi að landi er þá ekki nútíma ísfisktogaraútgerð að verða úrelt að nokkru leyti? Verður hún það kannski í framtíðinni?
    Ég held að enginn vafi sé á því að stjórnun fiskveiða hér á landi er komin í öngstræti. Fram undan eru harðnandi þjóðfélagsleg átök og vaxandi misrétti þegna í milli og hætta er á að verið sé að eyðileggja fiskimiðin, stærstu auðlind þjóðarinnar. Þá er það einnig skoðun ýmissa löglærðra manna að með núverandi kvótakerfi sé verið að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins. Slíkt er aðeins hægt að kalla einu nafni þjóðarslys.
    Ég hef ekki minnst á mikið hitamál í umræðunni um kvótann, þ.e. veiðileyfasölu eða aflagjald. Í samanburði við aðra þætti í fiskveiðistefnunni tel ég það vera smámál og engan veginn markmið í sjálfu sér að taka veiðigjald. Slíkt fyrirkomulag er þó fullkomið réttlætismál í því kerfi, sem nú er, til að einhver meining sé með því að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar og einnig til að koma í veg fyrir að hér myndist hópur forríkra aðila sem hafa fengið fjöregg þjóðarinnar að gjöf.
    Ég vona svo að þessi þáltill. mín fái jákvæðar undirtektir og í síðasta lagi verði búið að taka afstöðu til þessa máls um mitt næsta ár þannig að nefndin, sem núna er að fjalla um sjávarútvegsstefnuna, geti haft niðurstöðuna að einhverju marki að leiðarljósi.