Aðgerðir utanríkisráðuneytisins í máli tveggja íslenskra stúlkna í Tyrklandi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 13:50:00 (1027)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Hér er sem kunnugt er um afar viðkvæmt einkamál að ræða sem er vandasamt að fjalla um í opinberri umræðu. Hitt er ekkert launungarmál þegar spurt er um hvað ráðuneytið hefur aðhafst í málinu. Frá því að fyrst var til utanrrn. leitað með þetta mál hefur það verið eftirfarandi eftir mínu minni:
    Fyrst var málið tekið upp við tyrknesk stjórnvöld, þ.e. tyrkneksa dómsmálaráðuneytið í gegnum sendiráð Tyrkja á Íslandi sem er í Ósló, og leitað eftir því að fá svör frá því við tilteknum lögfræðilegum álitamálum. Síðan var málið skoðað með aðstoð lögfræðinga, þar á meðal í samráði við dómsmrn. Niðurstaða okkar að höfðu samráði við dómsmálayfirvöld í Tyrklandi, samráð við lögfræðilega aðila við dómsmrn., var þessi: Okkur þótti einsýnt að málið yrði að reka fyrir tyrkneskum dómstólum. Við leituðum til ræðismanns Íslendinga í Istanbúl um að fá ábendingu um traustan lögmann og fengum það. Við leituðum eftir kostnaðaráætlun um hvað það mundi kosta að reka slíkt mál fyrir tyrkneskum dómstólum og fengum mat á því. Við ráðlögðum viðkomandi aðilum að leita eftir því að fá stjórnvaldsúrskurð um bráðabirgðaforræði yfir börnunum staðfestan fyrir íslenskum dómstóli samkvæmt ábendingu þessa lögmanns. Reyndar kom fyrst spurningin um gjafsókn vegna kostnaðar við þessi réttarhöld. Því var vísað til dómsmrn. Því mun hafa verið synjað með vísun til einhvers fordæmis. Ég hef hins vegar lýst því yfir að utanrrn. væri reiðubúið til þess af fjárveitingu til eigin ráðstöfunar ráðherra að kosta þann hlut af lögfræðikostnaðinum sem þessi matsgerð hins tyrkneska lögfræðings hljóðar upp á. Þessu til viðbótar hef ég, sem utanrrh., skrifað beint starfsbróður mínum, þáverandi utanríkisráðherra Tyrklands, og óskað eftir því á persónulegum nótum að hann hlutaðist til um að greiða fyrir lausn á málinu. Það gerði hann með þeim hætti að taka það upp við dómsmálaráðuneytið þar í landi en svör þess voru að ekki yrði hjá því komist í þessu máli frekar en fjöldamörgum öðrum sambærilegum málum að reka það fyrir tyrkneskum dómstólum. Svör við því bárust reyndar frá þessum aðila, Mesut Yilmas, fyrir rúmum tíu dögum.
    Sitthvað fleira hefur ráðuneytið gert sem er þess eðlis að ekki verður frá því skýrt við opinbera umræðu. En ég vil að lokum taka fram eftirfarandi: Alveg frá því að málið kom fyrst til umfjöllunar okkar og fyrstu svör höfðu borist var það okkar niðurstaða að ráðleggja viðkomandi aðilum að reka málið fyrir tyrkneskum dómstólum. Óhjákvæmilegt yrði jafnframt að fela málið umsjá íslensks lögfræðings en aðilar hafa lýst því yfir að þeir hafi þráfaldlega leitað til íslenskra lögfræðinga og þeir hafi hafnað því að taka málið að sér. Nú mun að vera leyst. Það er kominn íslenskur lögfræðingur þeim til halds og trausts. Það er búið að ráða tyrkneskan lögfræðing til að flytja málið. Það er búið að afla upplýsinga um niðurstöður sambærilegra mála. Það hefur verið haft samband við norskan lögfræðing sem flutt hefur slík mál fyrir tyrkneskum dómstólum í sambærilegum málum. Það er fyrirliggjandi greinargerð um mat á því hvað það ætti að taka langan tíma og líkurnar á því að þetta ætti að geta leitt til jákvæðrar niðurstöðu eru að mati lögfróðra manna meiri en minni.
    Þetta eru nokkur helstu atriðin til svars við fsp. til ráðherra.