Aðgerðir utanríkisráðuneytisins í máli tveggja íslenskra stúlkna í Tyrklandi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 13:51:00 (1028)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og það er ánægjulegt að vissulega hefur ýmislegt verið reynt að gera. Mér er fullljóst að hér er um viðkvæmt einkamál að ræða en tel mig geta rætt um það hér vegna þess að móðir barnanna hefur opinberlega lýst því yfir að nokkurt atriði í málinu sé það að dómsmrn. hafi ekki treyst sér til

að flýta fyrir lögskilnaði hjónanna sem mundi styrkja stöðu móðurinnar í væntanlegu máli. Ég vil því leyfa mér, ef ég má, að biðja hæstv. dómsmrh. að svara í fyrsta lagi hvers vegna gjafsókn var neitað sem kemur mér mjög á óvart. --- Það er hæstv. landbrh. sem er sitjandi dómsmrh., er það ekki? --- Og jafnframt hvers vegna dómsmrn. hefur ekki treyst sér til að flýta fyrir endanlegum lögskilnaði.
    Mér er ljóst, hæstv. forseti, að það kann að vera erfitt fyrir hæstv. dómsmrh. og hæstv. landbrh. að svara þessum spurningum svo ég skal sætta mig við að það svar berist ekki þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki hér nema í líki hæstv. landbrh. En ég vil ljúka máli mínu með því, um leið og ég þakka hæstv. utanrrh., að óska eftir því við ríkisstjórn Íslands að hún geri það sem hún lifandi getur í þessu máli.
    Það getur hver sett sig inn í það hlutskipti að vita af börnunum þarna þvert gegn vilja þess foreldris sem forræðið hefur. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn geri allt sem í hennar valdi stendur til að leysa þetta skelfilega mál.