Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég hafði að mestu leyti svarað því sem 1. þm. Austurl. kom með núna. Reyndar hafði hann misskilið orð mín. Ég fékk ekki betur heyrt. ( HÁ: Ég misskildi ekkert.) Jú, þú misskildir allt, misskildir allt saman. Það liggur fyrir. (Gripið fram í.) Þú misskildir þetta allt saman. Það sem ég sagði var að ég hefði ekki þær upplýsingar um

þessi miklu störf sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði. Það var mitt svar og það er mín skoðun. ( Gripið fram í: Nei.) Þú hefur misskilið þetta. ( Gripið fram í: Nei, nei.) Jú, víst er það svo. Það er nú þannig. ( Gripið fram í: Nei, nei.) Jú, jú, það er nú þannig. Hvernig sem menn gjálma þá er það svarið.
    Varðandi fyrstu spurninguna um fulltrúa minn til að undirbúa endurskoðun á norrænu samstarfi í samræmi við ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna þar um, þá hef ég þegar valið mann til þess starfs og það er Matthías Á. Mathiesen. Ég ætla ekkert að lýsa hvaða hæfileikum menn þurfa að búa yfir. Ég tel að Matthías Á. Mathiesen hafi þá hæfileika og þá stöðu sem hentar mjög vel til þessa starfs. Þannig að ég hef þegar ákveðið, og það svarar fyrstu spurningunni, að hann skuli gegna þeirri stöðu.
    Varðandi hið vestnorræna samstarf og spurninguna um hvort ég muni leita eftir tilnefningum til skipunar þeirra tveggja manna, þá mun ég ekki gera það.