Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég þakka svörin. Ég get vel skilið hæstv. forsrh. í því að fá Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. þingmann, til að fara í þetta starf. Ég tel það vel valið. Hitt er svo annað mál að hæstv. forsrh. verður að kannast við orð sín. Og það vill svo til að þau eru tekin upp. Og hann sagði þessi orð sem er þungur áfellisdómur t.d. yfir manni sem hefur sinnt þessu samstarfi mjög vel, bæði í orði og verki, jafnframt því að byggja upp atvinnufyrirtæki sem byggir á samstarfi þessara þjóða. Ég held að hæstv. forsrh. ætti þá að koma hér upp og taka þessi orð til baka.
    Hér er náttúrlega um hreina pólitíska ákvörðun að ræða og alveg greinilegt að hæstv. forsrh. þolir enga í kringum sig sem ekki tilheyra hans flokki. Þetta hafði áður heyrst og það er í reynd það sem --- jú, hæstv. utanrrh. sem er nú trúlega genginn í flokkinn því hann er sammála öllu sem forsrh. segir. Ég tek því að þessu leyti orð mín til baka, hæstv. utanrrh.
    Það er náttúrlega einsdæmi að menn skuli ganga til verks með þessum hætti og því mikilvægt að vita hvort þar verði framhald á. Ég minni líka á þær skoðanir ríkisstjórnarflokkanna að ekki sé heppilegt að fulltrúar stjórnarandstöðu fari með forustu í samskiptum við erlendar þjóðir. Það er alveg nýtt í íslenskri pólitík og það er alveg nýtt í reynd á Vesturlöndum. Þetta eru þess vegna hættir sem hæstv. forsrh. er að innleiða í íslenska pólitík. Það er það sem við vörum við því þessi andi hefur ekki áður verið í íslenskum stjórnmálum.