Nýjar hugmyndir um orkufrekan iðnað

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:03:00 (1037)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegur forseti. Ég vona sannarlega að við munum finna á næstunni verkefni sem færi nýtt lífsblóð í íslenska atvinnuvegi. En um þau verkefni sem hér er vikið að með óbeinum hætti vil ég segja þetta: Það stendur einfaldlega þannig á að í orkufrekum iðnaði er ekki hagstætt árferði hvert sem verkefnið er. Hvort sem það er járnblendi eða ál eða annað það sem upplagðast er að vinna með raforku á Íslandi. Hins vegar eru nú til umræðu ýmis smærri viðfangsefni sem byggja á orkufrekum vinnsluaðferðum, m.a. rafbogabræðslu, sem er hugsanlegt að geti orðið að veruleika. Ég vil ekki segja mikið meira um þetta en að sjálfsögðu mun þetta verða kynnt rækilega og mér er sönn ánægja að því að ræða þetta við hv. 3. þm. Vesturl. hvenær sem er.