Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:04:00 (1038)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég bað um orðið eftir að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði hafið máls

og beint fsp. til hæstv. forsrh. Mér var meinað um orðið í þeim umræðum og forseti sagði mér að það væri óheimilt að fleiri töluðu en fyrirspyrjandi og ráðherra. Þetta kom mér á óvart vegna umræðu sem átti sér stað um þingsköp í forsætisnefnd sl. sumar þar sem um þetta mál var sérstaklega rætt og litið svo til á þeim tíma að um þetta giltu samkvæmt þingsköpunum sömu reglur og um fyrirspurnir almennt þannig að einstökum þingmönnum gæfist kostur á að gera stutta athugasemd.
    Nú vil ég út af fyrir sig ekki taka afstöðu til þess hvort þetta er heppilegt form sem forseti er að reyna að innleiða hér. En ég hef innt nokkra formenn þingflokka að því hvort um þetta hafi verið ráðgast, þ.e. túlkun þingskapanna að þessu leyti, og þeir könnuðust ekki við það. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort um þetta efni hafi verið rætt og ákvarðað í forsætisnefnd þingsins nýlega.
    Mér hefur verið bent á það að 22. okt. túlkaði forseti þingsköpin með þeim hætti að aðrir en fyrirspyrjandi og ráðherra ættu ekki rétt á að taka þátt í umræðu af þeim toga sem hér hefur átt sér stað. Á þeim tíma sat varamaður inni á þinginu fyrir mig þannig að mér var ekki kunnugt um þessa túlkun hæstv. forseta. Nú spyr ég hæstv. forseta: Hefur þetta mál verið rætt og ákvarðað af forsætisnefnd þingsins? Hefur það verið rætt við þingflokksformenn? Hafi það ekki verið gert finnst mér að óeðlilega hafi verið að máli staðið. En það kemur í ljós þegar hæstv. forseti upplýsir um það hvernig hann hafi komist að þessari niðurstöðu varðandi 49. gr. þingskapanna, líklega er það sjötti efnisliður í þeirri grein þingskapanna sem um er að ræða, og ég tel að megi túlka þannig að um gildi hliðstæðar reglur og um venjulegar fyrirspurnir.