Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:22:00 (1045)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Þingsköpum má náttúrlega ekki breyta að geðþótta forseta eða forsætisnefndar eða að geðþótta formanna þingflokka. Það er rétt sem hefur komið fram að forseti leitaði samkomulags í haust um að takmarka ræðutíma í þessum fyrirspurnatímum og það var rétt greint hjá hv. þm. Geir H. Haarde. Það var ekki tiltækilegt að fallast á slíkt samkomulag, m.a. með þeim rökstuðningi sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Það er ekki hlutverk okkar að hræra í þingsköpum. Við verðum að geta treyst á að þau verði haldin og farið eftir þeim. Þau eru mannanna verk og mega sjálfsagt breytast. Ég held þó að góð reynsla sé af þessum óundirbúna fyrirspurnatíma og hann hafi verið spor í rétta átt, en ef mönnum líka ekki þingsköpin þegar reynsla kemur á þau þurfa þeir að breyta þeim með formlegum hætti. Það er hægt að gera samkomulag og eðlilegt að beina því eins og forseti gerði til hv. þm. að þeir verði stuttorðir og noti ekki sinn ýtrasta ræðutíma og við því urðu þingmenn í þessum fyrirspurnatíma.
    Ég geri enga athugasemd við það þó hæstv. forsrh. hafi síðasta orðið í umræðum. En þingmenn verða að sjálfsögðu að fá að bera af sér sakir ef þeir telja sig þurfa eins og í öðrum umræðum í þinginu og þá geta þeir sent til baka strákslegar hnútur forsrh. Hæstv. forsrh. er vanur þessum vinnubrögðum úr sínu fyrra starfi. Hann kemur úr vernduðu umhverfi í borgarstjórn þar sem hann hafði sterkan og hlýðinn meiri hluta að styðjast við og hafði tækifæri til að hafa alltaf síðasta orðið og tala svo oft sem hann vildi meðan aðrir borgarfulltrúar máttu einungis tala tvisvar svo að það er skiljanlegt og afsakanlegt að hæstv. forsrh. freistist til að nota sömu vinnubrögð hér á Alþingi. En frú forseti, okkur ber að fara eftir þingsköpum.