Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:29:00 (1048)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Frú forseti. Það er ekki óeðlilegt að umræða um þingsköp taki töluverðan tíma hér á þingi þessar vikurnar þar sem við erum að starfa samkvæmt nýjum þingsköpum sem hafa breytt mörgu í starfsháttum Alþingis. Og það er ofur eðlilegt að við viljum ræða það hvernig mál skipast á grundvelli nýrra þingskapa. Í sambandi við það sem er til umræðu núna vil ég undirstrika það að hæstv. forseti reyndi í sumar að ná góðu samkomulagi og góðri samstöðu um það hvernig við mundum túlka þetta ákvæði sem nú standa deilur um, þ.e. um munnlegar, óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Þetta var rætt á allnokkrum fundum í forsætisnefndinni í sumar og þetta var einnig rætt á fundi með formönnum þingflokka. Mér virtist að um það gæti náðst gott samkomulag að reyna að miða þessar umræður við það að sem flest mál kæmust á dagskrá, að sem flestar fyrirspurnir mættu leggjast hér fram en umræðan mundi ekki einskorðast einungis við tvö mál. Nú sýnist manni þetta vera orðið að deiluefni og því vil ég hvetja til þess að við reynum að ná breiðri samstöðu um það hvernig við ætlum að standa að framkvæmd þessa nýmælis til þess að það megi þjóna þeim tilgangi sem við í upphafi bundum vonir við. Það held ég að sé mikilvægast af öllu vegna þess að þetta er nýmæli sem við viljum gjarnan hafa í nýjum þingsköpum og að það þjóni tilætluðum árangri.
    Ég vil staðfesta það aftur að það var ásetningur forseta og við sem sátum í forsætisnefndinni í sumar vitum gjörla um þennan góða vilja hennar til þess að ná um þetta góðu samkomulagi.