Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:50:00 (1057)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Í umræðum um frv. í gær kom fram að stjórnarandstæðingar í fjárln. hafa fyrirvara hvað varðar nokkra niðurskurðarlista á stofnkostnaðarliðum. Það á við um framhaldsskólana sem hér eru til atkvæðagreiðslu, það á við um sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, það á við um vegagerð og það á við um hafnaframkvæmdir. Okkar fyrirvari byggist á því að þessir listar og þessar hugmyndir hafa ekki verið til umfjöllunar í fjárln. Þær hafa ekki verið bornar þar neitt undir nefndarmenn sérstaklega. Þetta er ákvörðun sem tekin er af ríkisstjórn fyrr á þessu ári og er nú þegar að mestu eða öllu leyti komin til framkvæmda, enda langt liðið á ár og framkvæmdatími nánast liðinn. Við erum á móti hugmyndunum sem hér eru settar fram og ég segi því nei.