Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:59:00 (1058)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Hér er fjallað um niðurskurð á almennum rekstri til grunnskóla og þessi fjárlagaliður sem hér um ræðir er óskiptur liður sem ráðuneytið hefur til úthlutunar af, m.a. vegna óvissu um nemendafjölda og annarra liða sem upp kunna að koma óvænt í rekstri grunnskólanna.
    Það hefur verið til umræðu hér í þingsölum síðustu klukkustundirnar að hér kunni að vera um að ræða mál sem sérstaklega varðar sparnaðaraðgerðir vegna Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp. Ég gekk eftir því hjá hæstv. fjmrh. hvort hann gæti svarað þessari spurningu í fjarveru hæstv. menntmrh., en því miður lá það ekki alveg ljóst fyrir í hans huga hvað hér væri átt við. Í grg. með frv. segir aðeins um þennan lið: ,,Farið er fram á 20 millj. kr. lækkun á fjárveitingu til þessa fjárlagaliðar, sbr. ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda.``
    Ofan úr menntmrn. hef ég nú fengið þær upplýsingar frá skrifstofustjóra fjármála þar að hér sé ekki um að ræða ákvörðun er varðar Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp heldur sé þetta eins og ég gat um áðan almennur rekstrarliður þar sem ráðuneytið telur sig hafa svigrúm til sparnaðar. Og af því að hæstv. fjmrh. spurði eftir því áðan hvort ég væri almennt á móti sparnaðaraðgerðum þá ætla ég að gleðja hann með því að segja að ég er það ekki. Ég styð því þennan lið og legg til að hann verði samþykktur.