Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 15:27:00 (1066)

     Guðmundur Bjarnason (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Ég vil ég gera þá athugasemd við brtt. 123,12 að annars vegar eru hér greidd atkvæði um tillögur sem fram koma í fjáraukalagafrv. um lækkun á framkvæmdum við hafnamannvirki um 10 millj. kr. og svo hins vegar í sömu tillögunni breyting við þennan lið þar sem gert er ráð fyrir hækkun á framkvæmdum til hafnamannvirkja um 18 millj., þannig að í staðinn fyrir 10 millj. kr. lækkun í fjáraukalagafrv. eru hér greidd atkvæði um 8 millj. kr. hækkun.

    Stjórnarandstaðan hafði fyrirvara um þennan niðurskurðarlista upp á 10 millj. kr. og þó sérstaklega við einstaka liði sem þar er greint frá og koma fram með fylgiskjali í nál., t.d. sjóvarnargarð við Stokkseyri sem áætlað er að skera niður um 4 1 / 2 millj. kr. þó að þar séu stór verkefni sem þarf að vinna og kostnaðarsöm. Hins vegar munu einhverjir stjórnarandstæðingar hafa áhuga á því að fylgja tillögu um 18 millj. kr. hækkun sem hér er gert ráð fyrir til framkvæmda við ferjumannvirki í Þorlákshöfn, þannig að við viljum láta þetta koma fram, forseti, fyrir atkvæðagreiðsluna, hvernig hún er upp sett, það er ekki einfalt og reyndar ekki mögulegt að greiða atkvæði með öðrum liðnum en gegn hinum eins og þetta er hér lagt fyrir.