Seðlabanki Íslands

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 16:41:00 (1076)

     Vilhjálmur Egilsson :
     Virðulegur forseti. Ég tel að með þessu frv. til laga um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands sé verið að gera mjög mikilvæga breytingu á löggjöfinni um bankann og er sammála bæði viðskrh. og þeim hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað um það efni.
    Það sem ég tel að skipti hér mestu máli er að Seðlabankanum er heimilt að gangast fyrir því að tekin sé upp markaðsskráning á gengi krónunnar þannig að það miðist í auknum mæli við framboð og eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Þannig að í stað þess að Seðlabankinn í umboði ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnin sjálf ákveði beint nákvæmlega hvað erlendur gjaldeyrir á að kosta taki þetta mið af framboði og eftirspurn. Það þýðir hins vegar ekki að verð á gjaldeyri sveiflist fram og aftur innan dagsins vegna þess að Seðlabankinn á að hafa heimildir til þess að stunda viðskipti með gjaldeyri í því skyni að jafna verð hans milli einstakra tímabila.
    Ég vil áður en lengra er haldið vekja athygli á að í því fyrirkomulagi sem við höfum í dag er ákveðinn munur á kaup- og sölugengi og þessi mismunur er stofn til skattlagningar og skilar nokkrum hundruðum millj. kr. í ríkiskassann ár hvert. Þegar tekin hefur verið upp markaðsskráning á genginu hygg ég að ekki sé lengur hægt að hafa fyrir fram ákveðinn mun á kaup- og sölugengi þannig að taka þarf tillit til þess í sambandi við þennan skattstofn og breyta þar um og helst að sjálfsögðu að leggja þennan skatt á viðskipti með erlendan gjaldeyri niður.
    Menn hafa mikið rætt um hvernig verð á erlendum gjaldeyri þróast. Mín skoðun er sú að afar varhugavert sé að treysta yfirlýsingum stjórnvalda um það hvert verð á erlendum gjaldeyri eigi að vera alveg óháð hvaða ríkisstjórn situr og alveg óháð því í rauninni hvar sú ríkisstjórn starfar. Við höfum t.d. eitt nýlegt dæmi fyrir okkur frá Finnlandi þar sem tekin var upp sú stefna að tengja gengi finnska marksins við ECU. Það átti að vera mikill hornsteinn í efnahagsstefnu finnsku ríkisstjórnarinnar en síðan þegar ekki reyndust

vera efnahagslegar forsendur fyrir því að halda gengi finnska marksins stöðugu neyddist ríkisstjórnin til að láta markaðsöflin fara í gang og gengi finnska marksins féll milli 12--13% þrátt fyrir allar yfirlýsingar um fast gengi marksins. Þetta er eitt nýjasta dæmið um hvernig farið hefur fyrir slíkum yfirlýsingum um fast gengi.
    Við höfum að sjálfsögðu ýmis dæmi um yfirlýsingar um fast gengi úr okkar eigin sögu og nægir að benda á síðasta áratug í því sambandi og má kannski segja sem svo að eftir því sem yfirlýsingunum um fast gengi fjölgar séu meiri líkur til að gengi viðkomandi gjaldmiðils sé komið í hættu. Ég tel hins vegar að um mikið framfaramál sé að ræða vegna þess að með því að komið er markaðsverð á gjaldeyrinn er ríkisstjórn eða stjórnvöld ekki lengur dómari í eigin máli heldur er það markaðurinn. Við höfum haft það fyrirkomulag allt of lengi að ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa rekið tiltekna efnahagsstefnu sem yfirleitt hefur gengið út á að vera með halla á viðskiptum við útlönd og safna skuldum og síðan hefur samhliða því verið rekin fastgengisstefna eða stöðugleikastefna í gengismálum sem ekki hefur staðist.
    Það eru margir sem telja að gengi krónunnar eða verð á erlendum gjaldmiðlum lúti einhverjum öðrum lögmálum en verð í þjóðfélaginu eða efnahagslífinu almennt. Ég held hins vegar að það sé staðreynd að verð á erlendum gjaldmiðlum lýtur nákvæmlega sömu lögmálum og önnur verð. Og hlutverk verðs á erlendum gjaldmiðlum hlýtur að vera að jafna framboð og eftirspurn eftir erlendum gjaldmiðlum.
    Það sem gerist, og það skiptir kannski mestu máli um það hvort verð á erlendum gjaldmiðlum er stöðugt eða ekki stöðugt, er að ef verðbólga er og ef þensla er í efnahagslífinu eða eftirspurn eftir gjaldeyri er mun meiri heldur en framboðið á honum hlýtur þetta verð að breytast. Ef menn horfast ekki í augu við það og vilja ekki breyta verði á erlendum gjaldmiðlum þrátt fyrir að efnahagslegar forsendur krefjist slíks þá fer illa og þá kemur upp mikið misvægi, sérstaklega á milli útflutningsgreina og annarra greina sem þurfa að búa við þetta gengi.
    Það sem skiptir þess vegna mestu máli til að halda verði á erlendum gjaldmiðlum stöðugu þrátt fyrir markaðsskráningu og þrátt fyrir að það fljóti upp og niður er einfaldlega að hafa góða stjórn á eftirspurninni eftir gjaldeyri. Þunginn á hagstjórninni hlýtur að þurfa að flytjast yfir á að halda eftirspurninni eftir gjaldeyri í einhverjum tengslum við framboðið á honum. Þetta þýðir t.d. að það verður erfiðara að halda uppi sjálfstæðri vaxtastefnu og vaxtamunurinn á milli innlenda fjármagnsmarkaðarins og hins erlenda getur aðeins orðið mjög takmarkaður, en á móti kemur að ríkisstjórnin á hverjum tíma þarf að einbeita sér að því að halda lánsfjáreftirspurn sinni í skefjum. Þetta þýðir að halli á ríkissjóði á hverjum tíma má ekki vera nema afar takmarkaður og samræmast algjörlega þeirri eftirspurn sem er eftir gjaldeyri og lánsfé að öðru leyti. Þetta þýðir líka að ríkið verður að hafa stjórn á öllum sínum lánasjóðum í húsnæðiskerfi eða námsmannalánum eða hverju sem er þannig eftirspurn eftir lánsfé sé takmörkuð.
    Ég held að núverandi ríkisstjórn sé mjög meðvituð um þessa þætti og það hefur komið fram í þeim plöggum sem hér hafa verið lögð fram, bæði fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga, að það er einmitt markmiðið að draga úr lánsfjáreftirspurn ríkisins. Það hlýtur að vera eitt stærsta atriðið í því skyni að ná tökum á lánsfjáreftirspurn opinberra aðila. Þetta er atriði sem því miður hefur brugðist allt of oft en þetta er sannarlega aðalatriðið í því hvort tekst að halda þeirri stefnu að gengið verði stöðugt þrátt fyrir markaðsskráningi á genginu.
    Ég vil að lokum ítreka stuðning minn við þetta frv. Ég tel að mönnum ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að samþykkja það. Þetta hefur mikið verið rætt og ég held að menn viti svona nokkurn veginn um hvað málið snýst og sé ekki að langar tafir í þessari umræðu séu neinum til bóta af því að ég held að flestir sem um þetta mál hugsa séu í rauninni sammála um að það sé rétt að taka upp þessa markaðsskráningu á genginu.