Fjáraukalög 1990

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 16:52:02 (1077)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga 1990. Með frv. þessu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur um greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1990 umfram þær heimildir sem veittar hafa verið af Alþingi í fjárlögum 1990, lögum nr. 72/1990 og nr. 105/1990, fjáraukalögum fyrir árið 1990.
    Frv. þetta var áður lagt fram á Alþingi í mars sl. en var þá ekki tekið til umræðu. Það er nú endurflutt í lítið breyttri mynd enda er um að ræða endanlegt greiðsluuppgjör fyrir ríkissjóð á árinu 1990. Einu breytingarnar sem gerðar hafa verið eru leiðréttingar á yfirliti yfir geymdar fjárveitingar.
    Frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sem lagt var fyrir Alþingi 1. nóv. það ár, fylgdi ítarleg grg. um framvindu ríkisfjármála á sl. ári og þær heimildir sem óskað var samþykktar á umfram heimildir fjárlaga og fjáraukalaga sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí 1990. Þá var hinn 7. mars sl. lögð fyrir Alþingi ítarleg skýrsla um ríkisfjármál sl. árs þar sem afkoma ríkissjóðs er skýrð í samanburði við áform fjárlaga og útkomu ársins 1989.
    Heildarheimildir til útgjalda námu þannig 797 millj. kr. umfram endanlegar útgreiðslur. Heimilda til lántöku, umfram það sem áætlað var í seinni fjáraukalögum, var aflað með lögum nr. 125/1990, um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1990. Samkvæmt því eru nægar lántökuheimildir til að mæta lánsfjárþörf ársins.
    Í fjárlögum 1990, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 1989, var gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs yrði um 3,7 milljarðar kr. Kjarasamningar sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í febrúar á sl. ári breyttu launa- og verðlagsforsendum fjárlaga um 2% til lækkunar. Breyttar forsendur kölluðu óhjákvæmilega á endurskoðun á tekju- og útgjaldaliðum fjárlaga. Sú endurskoðun var staðfest með samþykkt fjáraukalaga í maímánuði. Við það lækkuðu áætlaðar tekjur ríkissjóðs um 2,6 milljarða kr. og gjöldin um 1,8 milljarða. Áætlaður halli á rekstri ríkissjóðs hækkaði þar með um 800 millj. kr. eða í 4,5 milljarða. Sérstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum urðu til þess að gjöldin lækkuðu minna en tekjur.
    Samhliða frv. til fjárlaga 1991 var lagt fram öðru sinni frv. til fjáraukalaga. Þau lög voru samþykkt í byrjun desember sl. og hækkuðu útgjaldaheimildir um 4,2 milljarða kr. eða í 97,7 milljarða. Á þeim tíma voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 92,6 milljarðar kr. þannig að rekstrarhalli ríkissjóðs stefndi í 5,1 milljarð.
    Samkvæmt endanlegu greiðsluuppgjöri vegna A-hluta ríkissjóðs fyrir árið 1990 urðu innheimtar tekjur ríkissjóðs 92,5 milljarðar kr. og útgjöld 96,9 milljarðar kr. sem er um 800 millj. kr. lægri útgjöld en samþykktar fjárheimildir. Afkoma ríkissjóðs var þannig nokkuð betri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga í desember sl. eða sem nemur 700 millj. kr. og nam rekstrarhallinn rúmlega 4,4 milljörðum kr.
    Ef fyrst er litið á þróun tekjuöflunar ríkissjóðs kemur í ljós að innheimtar tekjur urðu um 3,5 milljörðum kr. hærri en fjárlög frá í maí 1990 gerðu ráð fyrir. Það ber að geta þess að að hluta til var um færslu að ræða frá fyrirhuguðum tekjum yfirstandandi árs til ársins 1990 m.a. vegna sölu fyrirtækisins Aðalverktaka.

    Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga jukust innheimtar tekjur ríkissjóðs um tæp 4% frá fjárlögum ársins. Þannig urðu tekjur af tekjuskatti, bæði einstaklinga og fyrirtækja, mun meiri en reiknað var með og svipuðu máli gegnir um innheimtu innflutningsgjalda og launaskatta. Á móti komu minni tekjur af virðisaukaskatti.
    Nánari umfjöllun um innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1990 er að finna í skýrslu um ríkisfjármál 1990 sem lögð var fyrir Alþingi á sl. vetri. Þess má geta, sem ég áður hef nefnt, að í innheimtum tekjum eru arðgreiðslur frá Aðalverktökum, það eru 400 millj. kr.
    Nokkrar breytingar urðu á gjaldahlið frá því sem áætlað var í fjárlögum sem afgreidd voru í desember 1989. Fjáraukalög, sem samþykkt voru á Alþingi þann 5. maí 1990 í kjölfar kjarasamninganna í febrúar það ár, höfðu áhrif á útgjöld með tvennum hætti. Annars vegar lækkuðu útgjöld um rúma tvo milljarða kr. vegna breyttra launa- og verðlagsforsendna. Hins vegar var ákveðið að hækka útgjöld um nálægt 1.200 millj. kr. til að greiða fyrir kjarasamningum. Þar vó þyngst 800 millj. kr. hækkun á framlagi til niðurgreiðslna sem átti að mæta hækkun á smásöluverði hefðbundinna búvara fram til 1. des. 1990. Jafnframt var fallið frá fyrirhugaðri þrengingu bótaréttar vegna gjaldþrota sem hækkaði áætluð útgjöld um 100 millj. kr. og framlag til lífeyristrygginga var hækkað um 110 millj. Í meðförum fjárveitinganefndar Alþingis hækkuðu framlög til ríkisspítala um 147 millj. kr. Til að hamla gegn óæskilegum áhrifum aukins ríkissjóðshalla á efnahagslífið var samtímis ákveðið að lækka útgjöld, einkum til fjárfestingar, um 915 millj. kr.
    Seinni fjáraukalögin hækkuðu útgjaldaheimildir fjárlaga um 4,2 milljarða kr. eða samtals í 97,7 milljarða kr. Helstu tilefni til hækkunar skýrast af nokkrum stórum liðum. Fyrst skal nefna tryggingabætur, sem hækkuðu um 1.260 millj. kr. Endurmat á áhrifum verkaskiptalaga ríkis og sveitarfélaga leiddi til 280 millj. kr. aukningar útgjalda. Endurbótasjóður menningarstofnana fékk 300 millj. kr. framlag í stað lánveitingar sem áður var áformuð. Ýmsar ályktanir Alþingis leiddu til 320 millj. kr. viðbótarútgjalda. Og framlag til að ljúka uppgjöri endurgreiðslu söluskatts nam 200 millj. kr.
    Eins og áður er getið urðu endanlegar greiðslur ríkissjóðs 797 millj. kr. lægri en heimildir. Helstu frávik skýrast af lægri vaxtagjöldum og lægri greiðslum og rekstrartilfærslum.
    Í 3. gr. frv. kemur fram að umframgreiðslur vegna einstakra stofnana námu alls 609 millj. kr. en á móti vega óhafnar fjárveitingar vegna annarra fjárlagaliða, samtals 1.406 millj. kr. Af þessari fjárhæð hefur verið fallist á geymslu á tæplega 317 millj. kr., einkum vegna óhafinna fjárveitinga til viðhalds- og stofnkostnaðarverkefna.
    Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég til athugasemda við lagafrv. Frv. hefur verið lagt fram áður á hv. Alþingi. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. en æski þess að það verði sent til hv. fjárln. og til 2. umr.