Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:44:00 (1083)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. góðar undirtektir við þetta mál. Hann víkur að því í sínum spurningum hvers vegna flutt var nýtt frv. Það er auðvitað alveg rétt að það var álitamál og í rauninni kannski tvær leiðir nokkurn veginn jafnfærar og jafngóðar, þessi og að flytja breytingar við gildandi lög en það varð ofan á að gera þetta svona. Það var talið skýrara að láta málið koma allt fyrir að nýju vegna þess að hér er líka

verið að breyta ýmsu öðru en þessum heimildum til hækkunar eins og ég raunar rakti áðan. En þetta mál hafði þegar tekið þessa stefnu þegar ég tók við starfi umhvrh.
    Ég skal ekki neita því að kannski hefði verið fært að bæta eitthvað stöðu fyrirtækisins innan gildandi laga og reglna. En eftir ítarlega umfjöllun í stjórn Endurvinnslunnar, þar sem ríkið á sína fulltrúa, varð niðurstaða þeirra að óska eftir að þetta væri gert með þeim hætti sem nú er gert. Ég taldi ekki ástæðu til annars á því stigi en að verða við því og að málið héldist áfram í þeim farvegi sem það var raunar þegar komið í þegar mig bar að því, ef þannig má til orða taka. En ég efast ekki um að hv. umhvn. muni fá allar og ítarlegri upplýsingar um þetta þegar málið kemur þar til umræðu og umfjöllunar og hún mun að sjálfsögðu þá breyta því í þá veru sem nefndarmenn telja eðlilegt og æskilegt.
    En ég vek athygli á því að varðandi þær hækkanir sem hér er um að ræða þá er aðeins um heimildir að ræða og einnig er skylt að geta þess að það eru vandamál í sambandi við innheimtu og framkvæmd þessa máls sem ekki er tekið á með þessum breytingum. Þau eru að inn í landið kemur allverulegt magn, ég skal ekki segja um hversu mikið, af umbúðum af þessu tagi, öl og gosdósum sem aldrei hefur verið greitt skilagjald af við kaup en skilað er til Endurvinnslunnar og greitt skilagjald af. Það er unnið að því að finna heppilega lausn á þessu máli. Þar er við marga aðila að semja því þetta kemur eftir ýmsum leiðum og vonandi finnst lausn á því en það hefur leitt til nokkurra fjárútláta hjá fyrirtækinu sem eru auðvitað hrein útgjöld og þeir sem skila þessu hafa sem sagt ekki greitt skilagjaldið. Þarna er því með nokkrum hætti farið á svig við kerfið og undir þennan leka hefur ekki tekist enn að setja. En unnið er að tillögugerð um það.