Jarðhitaréttindi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:49:02 (1084)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um jarðhitaréttindi en það er 26. mál þessa þings og flm. að því ásamt mér eru þingmenn Alþb. allir með tölu, reyndar einn varaþingmaður sem sat á þingi þegar frv. var lagt fram í októberbyrjun. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. komi í þingsal þegar ég mæli fyrir þessu máli vegna þess að þetta er á hans starfssviði. Iðnrn. og hæstv. ráðherra hefur látið sig þessi mál varða. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að láta hæstv. iðnrh. vita að hans sé óskað hér.) Já, ég treysti því að hæstv. ráðherra komi senn í þingsal.
    Ég vil víkja hér í stuttu máli að efni þessa frv. sem hefur verið flutt margoft í þinginu á undanförnum áratug. Það var fyrst á þinginu 1982--1983 sem ég mælti fyrir þessu máli. Þá var það flutt sem stjfrv. í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens og lá fyrir sem slíkt, en síðan hefur það verið flutt af þingmönnum Alþb. á nokkrum þingum sem þmfrv.
    Frv. er að efni til almennt frv. um jarðhitaréttindi og er lagt fram til að fá skorið úr um eignarrétt á þessari auðlind, eignarrétt sem veruleg óvissa ríkir um til mikils baga fyrir rannsóknir á jarðhita og til baga í sambandi við nýtingu jarðhitans sem auðlindar. Meginstefna frv. kemur fram í 1. og 6. gr. þess en í 1. gr. segir:
    ,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.
    Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.``
    Í 6. gr. frv. segir:
    ,,Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.
    Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.``
    Í öðrum greinum frv. er nánar fjallað um eignar- og umráðarétt og hagnýtingarrétt og m.a. kemur fram í 11. gr. frv. að sveitarfélag, sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara skal hafa forgangsrétt til jarðhitarannsóknaleyfis og jarðhitaleyfis skv. 9. og 10. gr. á landi sínu og vera undanþegið leyfisgjaldi skv. 12. gr. Þannig er tekið ríkulegt tillit til hagsmuna sveitarfélaga í sambandi við flutning málsins og einnig til nýtingar einkaaðila á jarðhita niður að 100 metra dýpi eins og fram hefur komið.
    Vissulega er það svo, virðulegur forseti, að það er matsatriði hvar þessi mörk skuli draga út frá forsendum sem gefnar eru í frv. Það hefur komið fram við umræðu um þetta mál í þingnefnd á fyrri þingum að sumum finnst sem 100 metra dýptarlína nái helst til skammt miðað við núverandi tækni þar sem tiltölulega auðvelt og ekki mjög kostnaðarsamt sé fyrir einkaaðila að hagnýta sér jarðhita undir þessu dýpi. Þetta er vissulega matsatriði og ég vil að það komi fram af minni hálfu og okkar flm. að slík mörk geta vissulega verið til endurskoðunar og athugunar við frekari meðferð málsins því að þau eru ein sér ekki heilög fyrir okkur. Meginatriðið er að kveðið verði með skýrum hætti á um mörk einkaeignarréttar og almannaréttar, þ.e. ríkisins hins vegar á þessari miklu auðlind okkar, jarðhitanum. --- Ég vil biðja virðulegan forseta að ítreka beiðni mína til hæstv. iðnrh. um að hann verði viðstaddur umræðuna því að ég ætlaði ekki að tala lengi fyrir þessu máli.
    Í síðari hluta frv., III. kafla, er m.a. fjallað um nauðsynlega verndun jarðhitasvæða, ákvæði um að þeim megi ekki spilla og hvernig með skuli farið og eru það að sjálfsögðu atriði sem þarf að kveða skýrt á um í lögum og eðlilegt að taka inn í þetta almenna frv. um jarðhitaréttindi þó svo að nánari reglur tengist náttúruverndarlöggjöf og þeim aðilum, sem gert er lögum samkvæmt að fylgjast með umhverfisvernd.
    Þess má geta að nú er unnið að því á vegum Náttúruverndarráðs og Orkustofnunar í framhaldi af ályktun Alþingis að flokka jarðhitasvæði og væntanlega fáum við hér inn í þingið áður en langt um líður tillögur frá þessum aðilum í framhaldi af þessari þál. um verndargildi jarðhitasvæða og ábendingar um hvaða jarðhitasvæði þurfi að vernda og hlífa sérstaklega vegna umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. --- Getur hæstv. forseti nokkuð upplýst það hvort von er á hæstv. iðnrh. í þingsal? ( Forseti: Forseti heldur að það hljóti að vera von á hæstv. iðnrh. Hann mun vera á fundi úti í Þórshamri. Það er búið að koma til hans skilaboðum og væntanlega einnig búið að ítreka þau. Meira veit forseti ekki í augnablikinu, en mun láta kanna hvort ekki sé örugglega von á honum.)
    Í grg. með frv. er rakin saga tilrauna til lagasetningar varðandi jarðhita í landinu en hún nær langt til baka og er álitamál hvar á að byrja, öðru hvoru megin við miðja öldina því að frumvörp voru flutt sem þessu tengdust af þekktum þingskörungum og forustumönnum flokka á Alþingi. Þar hef ég í huga sérstaklega dr. Bjarna Benediktsson, ráðherra og formann Sjálfstfl., og dr. Ólaf Jóhannesson, formann Framsfl., sem tók þetta mál upp sem þingmaður, og flutti frv. um það á 6. áratugnum, áður en hann tók við forustu í Framsfl. Þessir þingmenn voru þeirrar skoðunar, eins og fram kemur í þeim málum sem þeir fluttu hér, að það bæri að setja víðtæka löggjöf um almannarétt og þjóðareign á jarðhitaauðlindinni og það er undrunarefni að ekki skuli hafa tekist allt til þessa dags að ganga frá almennri löggjöf um þessi efni. Síðar komu til atrennur gerðar af Magnúsi Kjartanssyni, þingmanni og ráðherra, til að fá setta löggjöf varðandi jarðhita. Hann beindi sjónum sínum sérstaklega að háhitasvæðum landsins, flutti frv. um það efni, bæði sem ráðherra í ríkisstjórn 1971--1974 og síðar sem þingmaður. Síðan tóku þingmenn frá Alþfl. sama mál upp varðandi lögfestingu á umráðarétti yfir háhitasvæðum sérstaklega og byggðu þá á frv. Magnúsar Kjartanssonar. En með tilkomu ríkisstjórnar 1978 var það tekið inn í stjórnarsáttmála að löggjöf um djúphita í jörð, eins og það var orðað, skyldi sett og á grundvelli þess ákvæðis var hafinn undirbúningur að því frv. sem nú er enn flutt í þinginu.
    Menn geta spurt: Hvers vegna er þetta frv. lagt hér fyrir enn og aftur þrátt fyrir að það hafi ekki hlotið byr á fyrri þingum? Því er til að svara að um er að ræða mál sem Alþingi að mínu mati getur ekki verið þekkt fyrir annað en að takast á við með einhverjum hætti og gera upp afstöðuna til því að um er að ræða eina af okkar mikilvægustu auðlindum. Það gengur ekki lengur að aka sér undan því að taka afstöðu til þeirra álitamála sem varða eignar- og umráðarétt með þessari auðlind.
    Ég hef líka ástæðu til að ætla að eitthvað geti birt til í þessum efnum og þingið kannski verið reiðubúið nú að fjalla um málið og taka afstöðu til þess. Ástæðurnar sem liggja til þeirrar bjartsýni af minni hálfu eru þær að á síðasta þingi komu fram jákvæð viðbrögð frá þáv. hæstv. iðnrh. varðandi þetta mál. Út af fyrir sig hef ég orðið þess var einnig frá fyrri tíð af hálfu þingmanna Alþfl. að þeir hafa tekið jákvætt undir meginsjónarmið þessa frv. en hæstv. iðnrh. lýsti áhuga sínum á síðasta þingi og sá áhugi birtist m.a. í með því að hann lagði fram hugmyndir til iðnn. þingsins á 113. þingi og ég hef leyft mér að taka erindi hans frá 26. nóv. upp sem fskj. með þessu frv. til þess að það liggi sem skýrast fyrir hvaða hugmyndir þar komu fram þannig að hv. iðnn. geti gert sér sem gleggsta grein fyrir því á hvaða stigi málið var þegar það lá fyrir iðnn. á 113. löggjafarþingi. Tillögur hæstv. iðnrh. voru í formi athugasemda við þetta frv., sem hér er efnislega flutt óbreytt, og dregnar saman í tillögu að frv. og breytingar, sem hann taldi rétt að gerðar yrðu, teknar upp.
    Í iðnn. á síðasta þingi var áhugi á því að afgreiða þetta mál, fjalla um það og afgreiða það, og nefndin hafði málið til meðferðar á mörgum fundum. Það var hins vegar ljóst að málið er umfangsmikið og í ljósi þess fékk iðnn. heimild til að leita til sérfræðinga eftir ráðgjöf um þessi efni og kvaddir voru til eftir óskum nefndarinnar þeir lögfræðingar sem hafa gefið sig að skyldum málefnum, þ.e. Magnús K. Hannesson lektor og Tryggvi Gunnarsson lögmaður. Þessir tveir ágætu lögmenn komu oftar en einu sinni á fund nefndarinnar og ræddu við hana um mál og tóku saman yfirlit fyrir nefndina sem þeir skiluðu inn 19. febr. 1991 undir fyrirsögninni ,,Jarðhitaréttindi`` og gáfu þar frumálit varðandi ýmis lögfræðileg efni sem snerta eignarráð á landi og landsréttindum því að þau atriði voru einnig komin inn í skoðun málsins á vegum nefndarinnar, m.a. vegna tillagna frá hæstv. þáv. --- sem raunar er núv. --- iðnrh. Einnig var dregin fram í þessu málsgagni sem lá fyrir iðnn. réttarstaðan í Noregi og Danmörku alveg sérstaklega sem þeir höfðu kannað. Hins vegar töldu lögmennirnir sig þurfa að afla frekari gagna og voru reiðubúnir til að vinna frekar að málinu. En svo fór að þrátt fyrir góðan vilja í iðnn. til þess að vinna að málinu tókst það ekki fyrir þinglok sem voru fyrr en venjubundið er vegna alþingiskosninga sem fóru í hönd.
    Vissulega var það svo, og ekki vil ég draga neina fjöður yfir það, að verulega skiptar skoðanir voru í nefndinni um grundvallaratriði sem snerta málið. Sá ágreiningur hafði ekki verið leiddur til lykta í þingnefndinni en það hafði heldur ekki reynt á hvort og með hvaða hætti unnt væri að brúa bil milli sjónarmiða. Til að auðvelda það voru einmitt þessir sérfræðingar kvaddir til að vinna að málinu og þar sem þeim vannst ekki tími til þess

að skila því áliti til nefndarinnar sem þeir annars voru reiðubúnir til að gera, þá lauk nefndin ekki umfjöllun um málið. Ég hef hins vegar síðan í samvinnu við þingmáladeild Alþingis ýtt á eftir því að þeir ynnu verk sitt eins og vilji þeirra stóð til og skiluðu áliti og nú er málum þannig komið að þess er að vænta að frá þeim komi álitsgerð, mér er tjáð fyrir lok þessarar viku, sem ég vænti að gangi þá ásamt frv. til iðnn. til frekari athugunar á málinu.
    Ég vil, virðulegur forseti, minna á að þörfin á því að setja löggjöf varðandi jarðhitann er sífellt að verða brýnni og það ekki síst í ljósi þeirra hugmynda og framkominna tillagna um Evrópskt efnahagssvæði sem boðað hefur verið að muni koma fyrir yfirstandandi þing vegna þess samnings sem unnið er að og búið var að ganga frá, að menn töldu, pólitískt í aðalatriðum 22. okt. sl. Það er ekki síst sá þáttur sem hefur ýtt við stjórnvöldum og hæstv. núv. iðnrh. að taka á þessu máli, þó að ekki hafi þurft að hvetja hann sérstaklega til þess, vegna þess að ég held að ekki sé í raun ágreiningur á milli okkar um meginviðhorf til þessa máls, að reyna að fá almannaréttinn sem ótvíræðastan í þessum efnum og skorið úr um mörk milli einkaeignarréttar og almannaréttar á jarðhita. Þessi mál munu hafa verið til einhverrar meðferðar á nýafstöðnu orkuþingi og það efni sem þar kann að hafa komið fram --- en mér tókst því miður ekki að sitja það þing sökum annarra starfa --- ætti að geta gengið til þingnefndar til frekari athugunar í sambandi við málið.
    Vegna þess að hæstv. iðnrh. er viðstaddur umræðuna þætti mér vænt um ef hann gæti greint okkur frá því hvar mál séu á vegi stödd á vegum ríkisstjórnar að þessu leyti, hvort hann geti hugsað sér að málið verði tekið upp af iðnn. í framhaldi af þeirri atrennu sem gerð var á síðasta þingi, og hvort vænta megi nýrra tillagna af hans hálfu annarra en þeirra sem bárust þingnefndinni á seinasta þingi.
    Ég tel sjálfsagt að þetta mál sé athugað opnum huga og leitað leiða til þess að jafna þann ágreining sem lengi hefur verið og hefur tafið lagasetningu í þessu mikilsverða máli allt of lengi. Jafnframt verði reynt að tryggja með lögum að auðlindin jarðhiti verði örugglega um alla framtíð í öruggum höndum Íslendinga þannig að við missum ekki tökin á auðlindinni, nýtingu hennar og nýtingarrétti, jafnhliða því sem við þurfum að sjálfsögðu að umgangast þessa auðlind af varúð eins og aðrar auðlindir. Því eins og menn þekkja núorðið er hér ekki um ótæmandi forða að ræða heldur takmarkaða auðlind. Hvert jarðhitasvæði hefur í raun sín takmörk sem menn þurfa að virða fyrir utan það að geyma þær gersemar sem hverir okkar og margt sem skreytir jarðhitasvæðin eru í íslenskri náttúru.
    Ég legg til, virðulegur forseti, að málinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. iðnn.