Þjóðhagsstofnun

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 18:30:02 (1089)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun. Flm. að því máli með mér er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Frv., sem er aðeins í tveimur greinum, gerir ráð fyrir því að aukið verði inn í 2. gr. laga um Þjóðhagsstofnun sérstökum lið sem þannig orðist:
    ,,Að safna þjóðhagslegum upplýsingum eftir kjördæmum í samvinnu við aðrar hlutaðeigandi stofnanir og birta þær opinberlega einu sinni á ári í aðgengilegu formi, m.a. um tekjur og útgjöld ríkissjóðs, hlutdeild kjördæma í landsframleiðslu og gjaldeyrisöflun og um innlán og útlán innlánsstofnana.``
    Þetta er efni frv. Þar er verið að auka við lögbundin verkefni Þjóðhagsstofnunar þar sem er heimildasöfnun um þau atriði sem fram koma í 1. gr. varðandi kjördæmi landsins.
    Frv. þetta hefur tvívegis áður verið flutt. Það var fyrst lagt fram á 110. löggjafarþingi ég mælti fyrir því 10. nóvember 1987. Þá var frv. lagt fram á 112. löggjafarþingi og er það lagt fram á nýjan leik nú með lítils háttar breytingu sem kemur til móts við fram komnar ábendingar í umsögnum við frv. eins og það kom fram upphaflega. Í 1. gr. er bætt við orðunum ,,í samvinnu við aðrar hlutaðeigandi stofnanir``. Þar eru hafðar í huga stofnanir eins og Seðlabanki Íslands og Byggðastofnun, svo dæmi séu tekin. Frá Seðlabanka Íslands komu ábendingar um að hluti af þeim verkefnum sem tillögur voru um að fela Þjóðhagsstofnun að draga fram í dagsljósið og birta í skýrslum sé unninn á vegum Seðlabanka Íslands.
    Ég vil taka það skýrt fram að af hálfu okkar flm. er það ekkert ágreiningsefni út af fyrir sig hver það er sem stendur að þessari gagnaöflun sem hér er um beðið en við höfum talið rétt að það sé Þjóðhagsstofnun sem haldi utan um þetta. Hluti af þessum málum er beinlínis á hennar verksviði. Um annað þarf hún að hafa samvinnu við aðrar stofnanir og ekki óeðlilegt að fela henni að halda utan um verkefnið í heild sinni.
    Ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi er sú að upplýsingar um þjóðhagsstærðir að því er snertir einstaka hluta landsins eru mjög ófullkomnar og liggja alls ekki á lausu. Ég held að það sé álit flestra þeirra sem athuga þessi mál og þekkja til þeirra að það sé mjög æskilegt svo ekki sé sagt brýnt að þarna verði úr bætt fyrr en seinna.
    Það getur vart verið ágreiningsefni að æskilegt er að hafa sem fyllstar upplýsingar til þess að meta þróun og stöðu mála á hverjum tíma og draga það fram m.a. hver sé hlutur einstakra hluta landsins í verðmætasköpun í landinu, hvað viðkomandi svæði fær til baka í formi framlaga úr ríkissjóði, hversu mikið leggur fólk á þessu svæði til þjóðarbúsins, bæði í formi skatta til sameiginlegs sjóðs landsmanna, í gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu.
    Sá þáttur sem kann að vera einna erfiðastur að ná utan um í þessum efnum eru innlán og útlán innlánsstofnana en um þau efni er sjálfsagt að þreifa sig áfram eftir því sem tök eru á og ástæða er talin til við frekari skoðun mála.
    Með frv. eru birt fylgiskjöl til þess að varpa ljósi á hvað fyrir tillögumönnum vakir. Það eru fyrirspurnir sem á sínum tíma voru lagðar fyrir ráðherra. Við tveimur þeirra komu allítarleg svör en fyrirspurn sem beint var til fjmrh. á 109. löggjafarþingi var ekki svarað, e.t.v. vegna þess hversu skammt var til þingloka þegar hún var lögð fram. Í öllu falli komu ekki fram svör við henni.
    Til glöggvunar fyrir hv. þm. og efh.- og viðskn., sem ég legg til að fái málið til

meðferðar, eru birtar umsagnir sem bárust nefndinni þegar hún leitaði þeirra á sínum tíma. Ég vil nefna við umræðuna að þegar mál þetta var rætt í nóvember 1987 þá komu fram jákvæðar undirtektir frá ýmsum aðilum, m.a. frá þáv. forsrh., Þorsteini Pálssyni, sem tók þátt í þeirri umræðu.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. er viðstaddur umræðuna. Þjóðhagsstofnun er á verksviði forsrn. sem og Byggðastofnun og hér er í rauninni um að ræða gagnaöflun sem snertir landið allt og mjög eðlilegt að forsrn. sem æðsta ráðuneyti og vökumaður heildarinnar líti til þessara mála. Ég vænti þess að það takist samvinna í þingnefnd og þinginu og einnig við hæstv. ráðherra um það að lögfesta ákvæði sem samstaða gæti orðið um og sem þjónar þeim markmiðum sem við tillögumenn erum að bera fram með flutningi þessa máls, sem ég legg til að verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.