Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:02:00 (1094)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Hér er flutt og mælt fyrir máli sem ég tel að sé afar viðamikið mál og nauðsynlegt að hv. Alþingi taki til gaumgæfilegrar athugunar.
    Eins og fram kemur í grg. með frumvarpinu og í framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur frumvarp þetta verið samið að frumkvæði stjórnar Viðlagatryggingar Íslands og var sú vinna farin í gang í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég hafði aðeins fylgst með málinu, ekki síst í kjölfar náttúruhamfara sem gengið hafa yfir undanfarna vetur, og komu þá málefni Viðlagatryggingar Íslands mjög til umræðu í þjóðfélaginu almennt, hlutverk trygginganna og hvernig þær tækju á þessum tjónum og bættu þau. Einnig var málið ítrekað rætt í fyrri ríkisstjórn svo og einstakir atburðir sem þessum tjónum tengdust og hvernig viðlagatrygging kæmi þar að.
    Ég átti fundi með stjórn viðlagatryggingar út af bótamálum, sem tengdust þessum tjónum, oftar en einu sinni og þar kom það fram að þessi endurskoðun væri í gangi og yrði að skoða í tengslum við endurskoðunina hvernig rétt væri að breyta lögum til samræmis við það sem reynslan hefur sýnt.
    Nú hef ég því miður ekki haft tíma til að kynna mér þetta frv. ítarlega og veit að hv. heilbr.- og trn. mun gera það, fara yfir málið og skoða það. Ég vil þó aðeins segja á þessu stigi vegna framsöguræðunnar að ég tel að skoða þurfi mjög ítarlega og nákvæmlega þá þætti og þau mannvirki sem ekki eru og hafa ekki verið brunatryggð en hafa ítrekað orðið fyrir tjónum af náttúruhamförum og hvernig hlutverk Viðlagatryggingar Íslands er gagnvart bótum á slíkum tjónum. Í öðru lagi finnst mér rétt að nefndin athugi gaumgæfilega það sem kemur fram í 4. kafla grg. en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. þessu er þó ekki lagt til að gerðar verði róttækar breytingar á viðlagatryggingu. Haldið er þeirri stefnu að eigendum nánar tiltekinna flokka eigna skuli vera lögskylt að hafa þær viðlagatryggðar. Hins vegar eru tilteknir flokkar muna felldir undan skyldutryggingu. Er það í samræmi við þá meginstefnu að hver og einn skuli ráða því hvort hann kaupir vátryggingu á eignum sínum og ekki beri að lögbjóða vátryggingu nema þegar sérstök veigamikil þjóðfélagsleg rök eru til þess.``
    Þetta tel ég, virðulegi forseti, að nefndin þurfi að skoða sérstaklega, hvort það er hlutverk viðlagatryggingar að fella niður ákveðna bótaflokka sem hafa fallið undir trygginguna og vísa því á hin almennu vátryggingarfélög. Auðvitað getur það átt við í ákveðnum tilfellum en mér finnst að um sé að ræða mál sem þurfi að skoða mjög vandlega og það þurfi að vera nokkuð skýrt hvað er verið að fjalla um.
    Hér eru tekin fram og skýrð nokkur nýmæli og ég verð að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, hv. 9. þm. Reykv., að mér sýnist vera á ýmsum sviðum um veigamiklar breytingar að ræða. Ég er alls ekki á þessu stigi að boða að þær kunni ekki að vera eðlilegar og að um þær geti ekki náðst samkomulag. Mér sýnist hins vegar að þetta sé þess eðlis að það þurfi að skoða mjög ítarlega og hef því ákveðna fyrirvara. En tel nauðsynlegt og taldi nauðsynlegt að endurskoða lög um viðlagatrygginguna og fagna því að þeirri endurskoðun skuli vera lokið og frv. komið hér til umræðu í Alþingi.