Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:12:00 (1097)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegur forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns er sjálfsagt að upplýsa það að stofnun þessi sem rætt er um er varla til nema á pappírnum. Það er ekki um neitt starfslið að ræða. Allar fjárreiður stofnunarinnar eru vistaðar, eins og kemur fram í frv. sjálfu, hjá Seðlabankanum og hann sér um allar fjárreiður. ( ÓÞÞ: Nokkuð mun vera af starfsliði þar.) Eitthvað er af starfsliði þar, réttilega, en það er ekkert starfslið á vegum stofnunarinnar. Framkvæmd er hins vegar á vegum Tryggingar hf. og ætli það sé ekki samtals af starfsliði þessarar ,,stofnunar`` einn maður í hlutastarfi. Menn flytja því ekki marga starfsmenn slíkrar stofnunar með sér þó hún flytjist á einhvern annan stað. Raunar má segja að stofnunin sé lítið annað en þeir fimm stjórnarmenn sem valdir eru af hinu háa Alþingi og það vill nú svo til að flestir þeirra eru utan höfuðborgarsvæðisins. Það má þess vegna segja að sé stofnunin miðuð við fjölda þeirra sem starfa á hennar vegum þá séu flestir utan þessa svæðis. ( Gripið fram í: Það er auðvelt að flytja hana.) Já, en hins vegar gæti ég trúað því að það mundi kosta eitthvað meira en það getur vel verið að þeim fjármunum yrði vel varið, að setja hana niður sem sjálfstæða stofnun á einhverjum öðrum stað með sjálfstæðu starfsliði og væntanlega sérstökum framkvæmdastjóra eða forstjóra ásamt öðru því sem til mundi heyra. Annars veit ég ekki um það. En svona er þessu varið að það er misskilningur að hér sé um stofnun að ræða með starfsliði fjölmennu eða fámennu eftir atvikum.
    Í öðru lagi vil ég einnig leiðrétta þann misskilning að með því að fella niður skyldutryggingu eigna og muna sem hafa verið skyldutryggðir í viðlagatryggingu og heimila í staðinn viðlagatryggingu þeirra eigna eða muna ef eigendur svo kjósa, þá sé verið að flytja það frá viðlagatryggingu út á hinn frjálsa markað. Ég bendi mönnum á að lesa 6. gr. frv. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki ráðherra að ákveða að stofnunin vátryggi neðangreint lausafé og fasteignir.`` Svo er talið upp allt það lausafé og allar þær fasteignir sem verið er að afnema skyldutrygginguna á. Það er því gert ráð fyrir því eftir sem áður að viðlagatrygging geti verið á þessum munum, lausafé og fasteignum, og að viðlagatryggingin veiti þá tryggingu samkvæmt samþykki ráðherra. Eina breytingin er sú að í staðinn fyrir að gera mönnum skylt að kaupa slíka tryggingu þá er þeim það heimilað. En að menn séu með þessum móti að flytja verkefni frá viðlagatryggingunni út á hinn frjálsa markað er hreinn og beinn misskilningur. Menn hafa bara ekki lesið þá grein frv. sem fjallar um þetta.
    Menn geta auðvitað deilt um hvort hér er um að ræða litla eða mikla breytingu. Að áliti þeirra tryggingafræðinga sem um þetta mál hafa fjallað er ekki um veigamiklar breytingar að ræða. Veigamestu breytingarnar felast einfaldlega í því að lausafé og munir, sem áður voru með tryggingarskyldu en eru ekki taldir þess eðlis að frá þjóðhagslegu sjónarmiði sé nauðsynlegt að skyldubjóða tryggingu á, eru nú undanþegnir tryggingarskyldunni en sama trygging er í boði eftir sem áður fyrir þá muni hjá sama tryggingaraðila. Eigendurnir fá aðeins að ráða því sjálfir hvort þeir vilja taka þá tryggingu eða ekki. Er það í samræmi við allmennan tryggingarrétt, t.d. á fasteignum, að húseigandi ræður því sjálfur hvort hann tekur þá tryggingu á fasteign sína sem ver hann gegn því tjóni sem fasteign hans

gæti orðið fyrir ef svo illa skyldi vilja til að ofsaveður skylli á.
    Við Íslendingar höfum ekki lagt út á þá braut að skylda menn til að taka slíkar tryggingar og það er verið að samræma það ákvæði viðlagatryggingarlaga hinu almenna ákvæði tryggingarlaga að við sambærileg eða svipuð tjón sé mönnum það í sjálfsvald sett hvort þeir tryggja eða ekki. Menn verða að treysta réttsýni manna og því að þeir dæmi sjálfir í þeim efnum en Viðlagatrygging Íslands býður eftir sem áður sömu tryggingu og skylt hefur verið að taka fram til þessa. Nú geta menn einfaldlega valið sjálfir hvort þeir taka hana eða ekki.
    Og meira en það. Í 6. gr. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að vátryggja með viðlagatryggingum fleiri muni, lausafé og fasteignir, en áður hefur verið gert ráð fyrir. Ef eitthvað er þá eykur þetta frv. rétt manna til að taka viðlagatryggingu. Það er verið að auka rétt manna til að taka viðlagatryggingu en þeim er það í sjálfsvald sett hvort þeir gera það eða ekki, nema í þeim tilvikum þegar um það er að ræða, að mati þeirra aðila sem frv. hafa samið, að verulegar þjóðhagsstærðir geti verið í hættu.
    Auðvitað geta menn haft á þessu mismunandi skoðanir. Sumir stjónmálamenn telja að það beri að lögskipa mönnum að taka tryggingar yfirleitt, ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að fólk fái að velja sjálft hvort það taki tryggingar eða ekki og því beri að lögskylda menn að kaupa tryggingar gegn flest öllu því tjóni sem menn gætu orðið fyrir. Aðrir telja hins vegar eðlilegt að menn velji í öllum tilvikum sjálfir hvort þeir tryggja sig.
    Sú leið sem hér er farin og hefur verið farin á umliðnum árum er sú að fara bil beggja og setja skyldutryggingu í þessu tilviki hvað varðar frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands á það lausafé og muni sem ég hef áður lýst og vel kemur fram í frv. hverjir eru. Auðvitað er skyldutrygging sett á ýmsa aðra muni og lausafé, svo sem bifreiðar. Þá er fyrst og fremst verið að tala um skyldutryggingu tjóns sem slíkir munir geta valdið öðrum. Það er ekki verið að skyldutryggja fyrir tjóni á viðkomandi hlutum heldur vegna tjóns sem slíkir munir geta valdið þriðja aðila. Er ég þá að tala um skyldutryggingar bifreiðatrygginga. Þá hefur einnig verið leidd í lög skyldubrunatrygging húseigna en þar eru menn meira frjálsir að því, a.m.k. mjög víða, við hvaða tryggingaraðila þeir skipta.
    Af hverju kom ekki fram í grg. frv. staða Viðlagatryggingar Íslands? Skýringin er einfaldlega sú, að áliti þeirra sem frv. sömdu eða ráðuneytisins, að það var ekki talið þurfa við vegna þess að ársreikningar Viðlagatrygginga Íslands eru opinber plögg. Gerð grein er fyrir þeim árlega og sú greinargerð er send til Alþingis. Alþingi hefur því undir höndum allar upplýsingar um stöðu Viðlagatryggingar Íslands í ársreikningum eins og þeir eru hverju sinni. Þetta eru opinber gögn sem alþingismönnum eru send og er innan handar fyrir menn að afla sér í þinginu. Verði hins vegar beðið um það sérstaklega að heilbrrn. hafi milligöngu um að útvega þau gögn er mér að sjálfsögðu ljúft að gera það. En það er skýringin á því að menn hafa þessar upplýsingar ekki með í frv. að þær liggja þegar fyrir á hinu háa Alþingi.
    Um ákvæði 18. gr. er það að segja að þar er horft á þá reynslu sem menn hafa haft og þær umkvartanir aðila sem orðið hafa fyrir tjóni að greiðsluskylda stofnunarinnar hafi ekki náð nógu langt. Það er verið að reyna að taka á því máli með því að auka greiðsluskylduna, m.a. með hliðsjón af sterkri eiginfjárstöðu Viðlagatryggingar.
    Ég bendi mönnum líka á 11. gr. vegna þess að þar er sagt í athugasemdunum um 2. mgr. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar felur 2. mgr. í sér talsverðar breytingar á reglum 2. mgr. 8. gr. gildandi laga. Þar er gert ráð fyrir að iðgjöld skuli lækka eða hækka ef eign stofnunarinnar fer yfir eða undir ákveðin hlutfallsmörk af vátryggingarfjárhæðum. Hér er lagt til að hækka það mark sem ræður lækkun iðgjalds um helming, eða úr 2‰ í 3‰ af áætluðum vátryggingarfjárhæðum í lok almanaksárs. Fari eign stofnunarinnar síðar niður fyrir 2‰ skal aftur hefja innheimtu á fullu iðgjaldi. Fari eignin niður fyrir 1‰ er stjórninni heimilt að innheimta iðgjöld með 50% álagi þar til 2‰ markinu er náð.``
    Eins og þarna kemur glögglega fram er verið að tengja saman eiginfjárstöðu viðlagatrygginganna annars vegar og iðgjaldaþörfina hins vegar. Þetta er því sá öryggisventill sem þarf að vera í slíku lagaákvæði til þess m.a. að tryggja það, sem hv. þm. Svavar Gestsson var að ræða um áðan, að það væri gert alveg ljóst að skuldbindingar viðlagatryggingar, eiginfjármyndun annars vegar og útgreiðslur hins vegar, héldust í hendur við iðgjaldaþörfina.
    Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm. að ekki er gert ráð fyrir því að tjón vegna sandfoks sé tekið inn í tryggingarskyldu viðlagatryggingar eða í þau boð sem viðlagatrygging býður þeim sem ekki lúta skyldutryggingarákvæðum um viðlagatryggingar. Það er sjálfsagt að nefndin skoði hvort rétt sé að taka inn fleiri atriði sem tjónvalda en þau atriði sem nefnd eru í frv.
    Um vinnuna með frv. skal það tekið fram, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að hún var hafin í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ýmis atriði í frv. voru rædd í þáv. ríkisstjórn. Þáv. hæstv. heilbrrh. fylgdist með gangi vinnunnar. Henni var að mestu leyti lokið þegar stjórnarskipti urðu. Þá átti aðeins eftir að leggja síðustu hönd á þetta frv. og það var gert skömmu eftir að stjórnarskipti urðu. Fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. hæstv. heilbrrh. hafa þess vegna öðrum fremur mótað vinnuna við þessa endurskoðun.
    Þess er einnig að geta að stjórn Viðlagatryggingar Íslands er kosin af Alþingi. Þar sitja fulltrúar ýmissa stjórnmálaflokka. Fyrrv. stjórn Viðlagatryggingar Íslands, sú sem var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, mælti einróma með frv. eins og það er úr garði gert nú. Frv. er því stutt af fulltrúum allra þeirra flokka í stjórn Viðlagatryggingar Íslands sem áttu þar fulltrúa á síðasta kjörtímabili. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni bað ég um það þegar nýkjörin stjórn viðlagatryggingar tók við að hún yfirfæri frv. og léti mig af því vita ef nýkjörin stjórn vildi gera einhverjar breytingar. Þess var ekki óskað, þannig að bæði nýkjörin stjórn og fráfarandi stjórn Viðlagatryggingar Íslands standa að þessu máli.
    Það þýðir auðvitað ekki að allir þeir flokkar sem staðið hafa að kosningu þessara manna í stjórn viðlagatryggingar standi þar með að frv., heldur er þetta aðeins til upplýsingar um það að frv. hefur hlotið góða og vandaða yfirferð og er samið af fagmönnum.
    Frv. hefur einnig verið lesið yfir af lögfræðingum heilbrrn. Þar hefur m.a. komið til álita það óveðurstjón sem hv. 7. þm. Reykn. minntist á áðan. Lögfræðingum heilbr.- og trmrn. þótti ekki heldur ástæða til að breyta frv. Þar er ég langt í frá að segja að ekki sé ástæða fyrir hv. heilbr.- og trn. Alþingis að taka sér góðan tíma til að skoða málið og að sjálfsögðu gerir hún tillögur um breytingar eins og henni þykir hlýða.
    En ég ítreka það sem ég hef áður sagt að þetta frv. hefur verið unnið að mestu leyti af tryggingafræðingi, lagaprófessor og stjórn Viðlagatryggingar Íslands. Þessari vinnu var komið af stað af fyrrv. ríkisstjórn. Henni var að mestu leyti lokið í valdatíð hennar og fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. ráðherra höfðu miklu meiri áhrif á gerð þessa máls en sá ráðherra sem nú flytur frv. Hann hefur að sjálfsögðu lítil afskipti haft af þessu máli önnur en að taka við verklokum og gæta þess að allir þeir aðilar sem um málið eiga að fjalla utan Alþingis hafi haft sitt um það að segja. Það hefur þessi ráðherra gert og leggur nú málið fyrir hið háa Alþingi til ákvörðunar.