Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:42:00 (1100)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Það er aðeins út af þeim ummælum sem hafa fallið um aðdraganda og undirbúning þessa frv. að ég vil láta það koma skýrt fram aftur, gat þess reyndar áðan, að ég átti fundi með fulltrúum úr stjórn viðlagatryggingar þegar unnið var að gerð þessa frv. en frv. hins vegar að öllu leyti unnið af þeim og fyrir tilstuðlan stjórnar Viðlagatryggingar Íslands en ekki af hálfu starfsmanna ráðuneytisins eða tilnefndum fulltrúum af hálfu heilbr.- og trmrh.
    Ég hafði þess vegna ekki séð eða yfirfarið frv. í lokabúningi þess eins og það liggur fyrir og málið hefði því alls ekki lagt fyrir fyrrv. ríkisstjórn. Ég vil aðeins að það komi skýrt fram, virðulegi forseti, út af ummælum hæstv. ráðherra, en ég er að öðru leyti ekkert að skorast undan neinni ábyrgð af því að hafa tekið þátt í þessari endurskoðun og eiga hlut að því að málið er nú komið til umræðu í hv. þingi. Ég reyndar fagna því, eins og

ég sagði áðan. Ég tel nauðsynlegt að þingið gefi þessu máli góðan tíma og nefndin fari rækilega yfir efnisatriði málsins.
    Fyrst ég er kominn aftur upp í ræðustólinn langar mig að nefna aðeins eitt atriði sem ég gleymdi að taka fram áðan. Það varðar ákvæði 16. gr. frv. þar sem fjallað er um að heimilt sé að lækka bætur eða synja alveg bótakröfu. Þar er tilgreint í 1. tölul.:
    ,,Þegar hús og annað mannvirki sem skemmist er reist á stað sem almennt var vitað fyrir fram að var hættulegur með tilliti til náttúruhamfara, t.d. ef mannvirki á sama stað hefur oftar en einu sinni orðið fyrir sams konar tjóni. Sama á við um lausafé sem geymt er í húsi eða öðru mannvirki við þær aðstæður sem hér greinir.``
    Út af þessu vil ég taka fram sérstaklega að við getum ekki ævinlega ráðið því hvar eignir og hvar mannvirki eru reist eða staðsett og alla vega er það ljóst með t.d. hafnarmannvirki og sjóvarnargarða sem verða e.t.v. ítrekað fyrir tjóni að slík mannvirki verða auðvitað ekkert flutt. Þau eru reist á þeim stað sem hagkvæmast hefur verið talið að hafa þau á og þau eru nú einu sinni þannig sett gagnvart sjógangi og náttúruhamförum að þau eru auðvitað ávallt í mikilli hættu ef óveður ganga yfir. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að hér komi fram ákveðinn fyrirvari við þau ákvæði sem hér er greint frá í 16. gr., að hægt sé að synja bótakröfu.
    Í athugasemdum við þessa grein er hins vegar nefnt t.d. ef skíðalyfta er reist á þekktu snjóflóðasvæði, þá hlýtur það að verða að teljast áhætta sem ekki hefur verið skynsamlegt að taka og fyrirvarinn kann að eiga við það sérstaklega en getur alls ekki verið almennur. Mér fannst nauðsynlegt að koma þessari athugasemd á framfæri.