Lífeyrisréttindi hjóna

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 15:16:00 (1104)

     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
     Herra forseti. Ég flyt hér frv. um lífeyrisréttindi hjóna. Meðflm. minn er frú forseti Salome Þorkelsdóttir. 1. gr. hljóðar þannig:
    ,,Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa meðan á hjónabandi stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi, sem áunnust meðan hjónabandið stóð, skiptast jafnt milli þeirra.``
    Í 2. gr. segir að lög þessi öðlist þegar gildi og grg. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp sama efnis var lagt fram í efri deild á 112. og 113. þingi en náði ekki fram að ganga. Það er því endurflutt á grundvelli sömu forsendna.
    Eins og nú er háttað eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.``
    Eins og fram kom var frv. sama efnis lagt fram í Ed. á 112. og 113. þingi en náði ekki fram að ganga. Nokkrar umræður hafa orðið um þetta mál og sýnist sitt hverjum. Það má þó undarlegt teljast að eignamyndun einstaklinga í hinum fjölmörgu lífeyrissjóðum hérlendis skuli myndast með þeim hætti sem raun ber vitni, þ.e. að enda þótt til hjúskapar hafi verið stofnað áður, við upphaf eða eftir að iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðs hófust skuli eignamyndunin vera enn sem raun ber vitni.
    Það blandast engum hugur um að hornsteinn þess þjóðfélags sem við byggjum er fjölskyldan. Þótt nokkur breyting hafi orðið á hvað áhrærir útivinnandi húsmæður er eigi að síður stór hópur kvenna sem vegna stöðu sinnar og aðstæðna kemst lítið eða ekkert út á vinnumarkaðinn.
    Varðandi gildismat þessa frv. er rétt að taka skýrt fram til framgangs lagafrv. þessu, að hér er eingöngu átt við áunninn rétt til ellilífeyrisréttinda og þá eingöngu miðað við þann rétt til töku lífeyris sem almennt er kveðið á um hjá Sambandi almenna lífeyrissjóðakerfisins.
    Varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins gildir hin almenna regla um rétt til töku lífeyris sem miðast við aldur. Frá því í maí 1987 hefur legið fyrir hinu háa Alþingi frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða og er þetta frv. sem hér er flutt í anda 6. mgr. 13. gr. þess frv. sem endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins lagði fram en þar er að finna mikinn lagabálk, alls 56 greinar auk nokkurra ákvæða til bráðabirgða.
    Ég tel mál þetta svo sérstætt með tilliti til þess óréttlætis sem heimavinnandi aðilar í hjúskap verða að una við að með ólíkindum verður að teljast á því herrans ári 1991. Hjónavígslan er jú til að tryggja sem best réttindi þeirra sem í hjónaband ganga ef svo ógæfulega tekst til að upp úr hjónabandinu slitnar. Þess vegna er eðlilegt að ekki aðeins

fastir fjármunir skiptist jafnt milli hjóna, heldur og þau réttindi sem áunnist hafa á hjúskapartímabilinu.
    Það má líka merkilegt teljast að þær umsagnir, sem borist hafa hinu háa Alþingi frá því að þetta frv. var fyrst lagt fram, eru með nokkuð sérstökum hætti og eins og beinlínis sé gert í því að tefja málið eða framgang þess. Einkum er athyglisvert að lesa umsögn frá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þeir telja allt, sem hér hefur verið talið af hinu góða, til hins versta máls og verður að segjast eins og er að það læðist að manni sá grunur við að lesa um þá geysilegu eignamyndun sem verður í almenna lífeyrissjóðakerfinu, en þar segir að eignir lífeyrissjóða hafi margfaldast á undanförnum árum og í fyrra jukust þær um 20% að raungildi. Eignirnar voru um 130 milljarðar um áramótin, nokkru meiri en öll innlán banka og sparisjóða.
    Það segir sig sjálft að við þessa geysilegu eignamyndun, sem verður í lífeyrissjóðakerfinu, er annað óeðlilegt en að slíkt frv. til laga, sem hér hefur verið lagt fram, nái fram að ganga vegna þess, eins og ég gat um í upphafi, að þegar til hjúskapur hefur verið stofnað er það ekki einn aðili sem hefur unnið fyrir þessum réttindum heldur eru þar fleiri sem koma til.
    Virðulegi forseti. Lögfróðir menn telja ófært að setja lög með afturvirkni ef íþyngjandi eru. Hér er ekki um slíkt að ræða og því er lagt til, verði frv. að lögum, að eignarréttur samkvæmt lögunum hafi afturvirkni frá þeim tíma þá til hjúskapar var stofnað ef iðgjöld voru greidd þá eða síðar til lífeyrissjóðs.