Lífeyrisréttindi hjóna

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 15:23:00 (1105)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Herra forseti. Ég held að með þessu frv. sé hreyft mikilvægu réttindamáli. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lífeyrisréttindi og margvíslegur bótaréttur annar er tengdur tekjum og þátttöku á vinnumarkaði, þ.e. því meiri sem atvinnuþátttakan hefur verið og því lengri sem hún hefur verið, því meiri tekjur sem menn hafa haft því meiri rétt hafa þeir t.d. þegar til þess kemur að menn fara á eftirlaun.
    Inn í þetta kerfi er innbyggt misrétti kynjanna og ég held að mjög mikilvægt sé að tekið sé á slíkum hlutum. Karlar hafa almennt verið meira á vinnumarkaði en konur. Konur eru þar stopulli, þær vinna skemmri vinnutíma, þær hafa að jafnaði lægri laun og þar af leiðandi hafa þær minni rétt í lífeyriskerfinu.
    Ég held að þetta sé lýsandi dæmi um það viðhorf sem er í samfélagi okkar til vinnu, þ.e. vinna sem telst launavinna er mikilvæg og skapar réttindi, vinna sem ekki er launað fyrir, eins og heimilisstörf, skapar afskaplega lítinn rétt og raunar takmarkar rétt fólks.
    Við þekkjum sjálfsagt öll dæmi um konur sem komnar eru yfir miðjan aldur og hafa verið takmarkað á vinnumarkaði en með mikilli vinnu á heimili hafa þær gert eiginmönnum sínum eða sambýlismönnum kleift að leggja vinnumarkaðinum til alla sína krafta, gert þeim kleift að afla þar tekna og skapa sér réttindi. Þeir hafa með öðrum orðum skapað sér réttindin, þær eru réttlausar. Það eru mörg dæmi sem a.m.k. ég hef fengið til mín um miðaldra konur sem standa nánast á berum bökkum þegar kemur til hjónaskilnaðar. Þær fá ekki vinnu vegna þess að þær eru komnar á þann aldur að þær teljast ekki fýsilegur vinnukraftur og eins vegna þess að þær hafa ekki verið mikið á vinnumarkaði og hafa ekki þá starfsreynslu sem krafist er. Þær hafa því lítið sér til framfærslu oft á tíðum, þó svo að þær séu ekki alveg eignalausar því auðvitað fara þær með sinn helming af búinu. Við 67 ára aldur, sem oft er skammt undan, fá þær aðeins ellilífeyri og tekjutryggingu en engin eftirlaun. Karlarnir, hins vegar í þessum tilvikum, fara með sinn hlut af eignunum rétt

eins og konurnar, þeir halda sinni launavinnu og hafa sínar tekjur og þeir halda sínum lífeyrisrétti. Eins og ég sagði þá finnst mér að margar konur, þegar þannig er ástatt, standi nánast á berum bökkum.
    Ég verð hins vegar að segja að ég er almennt ekki fylgjandi því að réttur annars hjóna sé leiddur af rétti hins. Mér finnst að það ætti að vera sjálfstæður réttur karls og konu sem eru í hjónabandi, en ég tel þó að í þessu tilviki, sem hér er um að ræða, geti það vel komið til álita að réttur annars hjóna sé leiddur af rétti hins, eins og mundi gerast í þessu tilviki ef lífeyrisréttinum væri skipt. Ég held að þetta gæti komið til álita meðan ekki er tryggt að allir landsmenn séu í lífeyrissjóði. Það væri þá farið með lífeyrisréttinn rétt eins og aðrar hjúskapareignir sem koma til skipta við skilnað.
    Hins vegar vil ég koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég held það sé löngu tímabært að skoða og stokka upp lífeyriskerfið í landinu og ég held að það sé ekki með nokkrum rétti hægt að verja þá mismunun sem í því felst.
    En áður en ég fer héðan úr pontu langar mig til að spyrja flm., því nú eru margir lífeyrissjóðirnir sameignarsjóðir, hvort það sé engum vandkvæðum bundið að fara með framlag í slíkan sjóð eins og um séreign einstaklings sé að ræða.