Virkjun Skaftár og Hverfisfljóts

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:33:00 (1109)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Svæðið milli Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls er þriðja mesta vatnsorkusvæði landsins næst á eftir Þjórsá/Hvítá og Jökulsánum á Austurlandi. Virkjanleg orka á þessu svæði er metin sem 8500 gígavattstundir á ári og af því er sennilega raunhæft að tala um að 50--60% séu hagkvæmir virkjunarkostir. Þetta er þó ekki þekkt til hlítar því að rannsóknir á svæðinu eru enn skammt á veg komnar, en þó hefur verið unnið nokkuð að þeim á undanförnum árum allt frá árinu 1977 eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi.
    Í stuttu máli má segja að landmælingum vegna yfirlitskorta í mælikvarðanum 1:20.000 eða 1:25.000 sé nú lokið og kortagerðin sjálf um það bil hálfnuð. Rennslismælingar hafa nokkuð verið stundaðar og bættar á síðustu árum. T.d. voru á árinu 1989 settir nýir rennslismæliskláfar í Hverfisfljót og Djúpá. Kerfi vatnshæðar og rennslismælinga hefur því verið verulega styrkt. Rannsóknir á sviði jarðfræði og jarðvatnsfræði eru hins vegar skammt á veg komnar. Það sama er að segja um verkfræðilega úrvinnslu þessara gagna og það er ekki farið að reikna út kosti mismunandi virkjunarkosta. Til þess að framkvæma slíka útreikninga þurfa yfirlitskortagerðin og jarðvatns- og jarðvegsrannsóknir að vera komnar lengra á veg.
    Fyrir árið 1977 hafði verið unnið nokkuð að áætlanagerð og jarðfræðirannsóknum vegna hugmynda um að veita Skaftá og fleiri ám til Tungnaár en núverandi rannsóknir eru hins vegar alveg óbundnar af slíkum hugmyndum og hvernig staðið verði að nýtingu vatnsorkunnar. Orkustofnun hefur gert áætlun um átak til vatnsorkurannsókna. Þar er áætlað að ljúka kortagerð á þessu svæði og gera fyrstu forathuganir á virkjunarstöðum sem byggðar væru á rennslismælingunum nýju og yfirlitskortum á næstu fjórum árum. Að sjálfsögðu er framkvæmd rannsóknaráætlunarinnar háð fjárveitingum og eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda er náttúrlega nauðsynlegt að undirbúa virkjunarkostina fyrir fram með svo góðum aðdraganda sem frekast er kostur. Til þess þarf fé og sannleikurinn er auðvitað sá að það er auðveldara að afla fjár til virkjunarrannsókna þar sem menn sjá fram á raunverulegar framkvæmdir. Ég tel að einmitt á þessu sviði þurfi nú að huga að því vandlega að láta orkufyrirtækin taka meiri beinan þátt í rannsóknarkostnaðinum.