Virkjun Skaftár og Hverfisfljóts

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:38:00 (1111)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Ég held að í þeim komi skýrt fram að þetta er stórt og mikilvægt mál þar sem um er að ræða þriðja stærsta vatnasvæði eða vatnsorkusvæði landsins. Og ég vil þakka fyrir að áform eru uppi um að halda þessu starfi áfram og sérstaklega vil ég leggja áherslu á að lokið verði þeirri kortagerð sem nauðsynlegar rannsóknir hafa þó verið gerðar til þess að hægt sé að inna af hendi.
    En vegna þess sem hv. 4. þm. Austurl. sagði vil ég geta þess að á þessu vatnasvæði er núna ein alvarlegasta uppblásturs- eða gróðureyðingarhættan á landinu, a.m.k. í byggð, vegna hlaupa í Skaftá. Því er vissulega ástæða til þess að huga að þeim þætti og örugglega mundi það geta haft jákvæð áhrif á afleiðingar þeirra hlaupa ef hægt væri að beisla vatnsflauminn en ég skal ekki segja um hvaða annmarka það hefur aftur að öðru leyti.
    En ég þakka fyrir svörin og vænti þess að sem fyrst rætist þau áform sem hæstv. iðnrh. skýrði hér frá.