Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:48:00 (1115)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það er fróðlegt að fá fram tölur en þær segja ekki alla sögu og það fer eftir því við hvað er miðað hverju sinni. Það kemur auðvitað út nokkuð annað þegar litið er yfir árið 1990 til dagsins í dag eða hvort litið er til tímans innan ársins 1991. Meginspurningin er auðvitað hvert stefnir. Hvað gerir Landsvirkjun t.d. á næsta ári? Ef hækkunarferli verður eitthvað viðlíka og árið 1991 þá horfir ekki vel. Ráðherra kemur hér með tölur varðandi lengri tíma og miðað við 1984 eftir alveg gífurlega hækkunarskriðu hjá Landsvirkjun sem varð eftir að ný ríkisstjórnar var mynduð 1983. Þá hækkaði raforkuverðið frá Landsvirkjun stórkostlega. Menn geta því fengið út ýmsa hluti með slíkri viðmiðun.
    Meginatriðið í þessu máli er hins vegar það hvernig raforkukostnaði heimila er háttað eftir landssvæðum og hvernig mönnum miðar í því að jafna raforkukostnaðinn. Það er það sem skiptir meginmáli upp á möguleika, t.d. til sátta í þjóðfélaginu um kjarasamning og annað af þeim toga sem tekið er inn í þessa umræðu.