Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:57:00 (1121)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Það virðist vaka í þessu máli nokkur misskilningur. Sérstaklega þótti mér hans gæta hjá hv. 2. þm. Vestf. þegar hann segir að ég hafi valið að svara ekki spurningunni sem upp var borin. Það er að sjálfsögðu ekki rétt hjá þingmanninum því fyrir mig voru bornar þrjár ákaflega nákvæmt skilgreindar spurningar með upphafspunkti fyrir verðsamanburðinn og þeim var svarað skilmerkilega. Ég vek athygli á því að það var hv. fyrirspyrjandi, 3. þm. Vestf., sem valdi tímann.
    Fjórða spurningin varðaði það hver væri hlutur raforkunnar í framfærslukostnaði heimilanna. Til þess að gefa mynd af því er miklu skynsamlegra að líta yfir lengri tíma en skemmri. Þess vegna svaraði ég á þann veg sem gert var. E.t.v. hefur hv. 2. þm. Vestf. ekki verið kominn í salinn þegar spurningunum var svarað því þeim var svarað undanbragðalaust og hafi tölurnar ekki svarað þeim væntingum sem þingmaðurinn gerði sér þá verður bara að hafa það. Þetta á reyndar líka við um það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. sem lét í raun og veru að því liggja að ég hefði á einhvern hátt valið samanburðartíma og tölur sem hentuðu mínum málflutningi. Það var ekki. Það var hv. fyrirspyrjandi sem valdi tímann.
    Þá kem ég að því sem ég tel vera seinni misskilninginn. Hann er sýnu alvarlegri því hann fjallar ekki eingöngu um það hvernig menn tala um tölur. Þar var í raun og veru hallað réttu máli um hugtökin sjálf. Þar á ég við það sem kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vesturl. sem halda því blákalt fram að nú sé hin aukna niðurgreiðsla á raforku sem ákveðin var í vor uppurin. Þvílík fjarstæða. Að mennirnir skuli leyfa sér að halda þessu fram. Hafa þeir séð rafmagnsreikningana hjá því fólki sem borgar þetta? Þar kemur mjög skilmerkilega fram að þessi raforkuniðurgreiðsla hefur verið aukin, stendur að sjálfsögðu óhögguð, enda fé til hennar veitt á næstu fjárlögum.
    Hitt er svo rétt að lokum, virðulegi forseti, að það er ráð fyrir því gert í þeirri þáltill. sem var til meðferðar í fyrra, en hlaut því miður ekki fullnaðarafgreiðslu, og í þeirri stefnumörkun sem ríkisstjórnin samþykkti í framhaldi af henni, að orkufyrirtækin, þar á meðal Landsvirkjun, komi síðar inn í þessa áætlun um að jafna orkukostnaðinn á landinu. Þeir sem halda því fram að það hafi á nokkurn hátt verið farið á bak við þau fyrirheit fara með rangt mál. Niðurgreiðslan er ekki uppurin, hún stendur sannarlega föst.
    Hinu verður ekki breytt að það hafa orðið raunverðsbreytingar á síðustu mánuðum sem þó gera ekki betur en að halda í við verðlagsþróun á kjarasáttartímanum sem hv. fyrirspyrjandi hreyfði sjálfur í upphafi máls. Fram undan er þetta verkefni. Reyndar stendur svo á að þau málefni sem hefur verið hreyft í umræðunni verða víst rædd aftur síðar á þessum fundi því fyrirspurnir liggja frammi á þessum fundi um raforkumál, bæði dreifikerfi í sveitum og lækkun húshitunarkostnaðar.