Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:01:00 (1122)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Það er rétt að það komi hér fram að Landsvirkjun selur sams konar orku á sama verði hvar sem er á landinu á útsölustöðum sínum eða tengipunktum. Hv. fyrirspyrjandi gerði skilyrðislausa kröfu til ríkisfulltrúanna í stjórn Landsvirkjunar að þeir stuðluðu að jöfnun orkuverðs. Ég tel mig hafa stuðlað að jöfnun orkuverðs, en ég held hann ætti að tala við flokksbræður sína sem sitja í stjórn þessa fyrirtækis og gera þeim grein fyrir þessari kröfu og gera jafnframt skilyrðislausa kröfu til ríkisstjórnarinnar og sjálfs sín að vinna að jöfnun orkuverðs. Ég hef hvað eftir annað lagst gegn hækkunarbeiðnum í stjórn Landsvirkjunar og hef stundum fengið þær lækkaðar og lagfærðar.

    Málið er það að sérstök hækkun á þessu ári kemur til vegna þess að Blönduvirkjun er tekin í notkun án þess að þörf sé fyrir hana. Það kostar 800 millj. á ári að reka hana og það er engin önnur leið fyrir stjórn fyrirtækisins en að meginþunginn af því komi inn í orkuverðið.