Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:04:00 (1125)

     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 103 hef ég borið fram fsp. til hæstv. iðnrh. um styrkingu rafdreifikerfis til sveita.
    Í nóv. 1990 var lögð fram mjög ítarleg skýrsla um styrkingu rafdreifikerfis til sveita á Íslandi. Þessi skýrsla var unnin á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og orkuráðs. Í skýrslunni er gerð úttekt á dreifikerfi á öllu landinu og lagt mat á nauðsynlega styrkingu þess ásamt kostnaðaráætlun um þær framkvæmdir. Þegar skýrslan lá fyrir var sent erindi til iðnrh. og þess óskað af orkuráði að á árunum 1991--1997 yrði lokið við það sem eftir væri af styrkingu rafdreifikerfanna í sveitum svo þau gætu borið það álag sem á þeim verður á næstu árum með þeim hætti að unnt verði að veita raforkunotendum í strjálbýli eins góða þjónustu og nú er veitt í þéttbýli.
    Í skýrslunni kemur fram að verkefninu er skipt í þrjá meginflokka. Í fyrsta flokki eru bráðaðkallandi verkefni. Í öðrum flokki eru verkefni sem ljúka þarf fljótlega og í þriðja flokki er verkefni sem koma til eftir því sem álagið eykst frá því sem það var þegar skýrslan var gerð. Kostnaður við þetta verk er áætlaður 1 milljarður og 60 millj. kr. Á Vesturlandi einu er um að ræða 267 millj. kr.
    Með þeim miklu breytingum sem eru að verða á atvinnuháttum í sveitum verður stöðugt mikilvægara að tryggja orkudreifingu svo nýta megi raforku til nýrra atvinnugreina í hinum dreifðu byggðum. Ljóst er að hér er um verulega mikinn kostnað að ræða og því nauðsynlegt að vinna verkið eftir áætlun og tryggja að orkufyrirtækjum verði gert mögulegt að vinna verkið með atbeina ríkisins eða með því að tryggja dreifiveitum stuðning Landsvirkjunar.
    Til þess að fá fram stöðu málsins núna er borin fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:
    ,,Hefur iðnrh. undirbúið eða látið gera áætlun um styrkingu rafdreifikerfis í sveitum landsins?``