Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:07:00 (1126)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hefur á vegum orkuráðs verið gerð sérstök áætlun um framkvæmdir við að styrkja rafdreifikerfi í sveitum þannig að það geti annað því álagi sem þar má búast við. Reyndar var slík áætlun samin á árinu 1979 eins og mörgum þingmönnum er kunnugt. Eftir þeirri áætlun hefur verið unnið eftir því sem fjármagn hefur verið veitt til slíkra framkvæmda. Það er rétt, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að seint á árinu 1988 ákvað orkuráð að endurskoða áætlunina frá árinu 1979. Sérstakur samstarfshópur vann þetta verk ásamt verkfræðistofunni Afli og skoðaði rafdreifikerfið til sveita, en ekki í þéttbýli, og studdist við þá skilgreiningu sem Hagstofan notar, þ.e. að staðir með fleiri en 200 íbúa teljast til þéttbýlis. Síðan var metið út frá ákveðnum forsendum, sem samstarfshópurinn varð sammála um, hvaða framkvæmdir teldust nauðsynlegar næstu 25 árin til þess að raforkukerfið í sveitum gæti annað raforkunotkun. Niðurstaðan var svo birt í þeirri skýrslu sem kom út í nóvember í fyrra og hv. fyrirspyrjandi nefndi.
    Mig langar til að vekja athygli á þeim fjárhæðum sem þar koma fram því að auðvitað er það kjarni málsins. Þar er frá því skýrt að áætlað sé að heildarkostnaður við að framkvæma þessa áætlun sé 1.058 millj. kr. og þeim kostnaði skipt eftir landssvæðum og verkefnum. Um helmingur þessa kostnaðar er vegna þrífösunar á línum. Langstærsti hluti þessarar útgjaldaáætlunar fellur á Vesturland, Norðurland eystra og Suðurland.
    Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda kemur orkuráð fram með þá hugmynd að skipta þessum framkvæmdum upp í forgangsröð. Í forgangsflokk, sem þeir kalla, kæmu framkvæmdir upp á 470 millj. kr. Í næsta flokk kæmu framkvæmdir fyrir um það bil sömu fjárhæð og var lagt til að framkvæmdir við þessa tvo flokka dreifðust á sjö ár. Í síðasta flokki yrðu svo framkvæmdir fyrir 118 millj. kr. og yrðu þær gerðar síðar. Þ.e. í þessu fólst, í lauslegum tölum talað, framkvæmdaáætlun upp á 900 millj. kr. á sjö árum.
    Þessi áætlun verður væntanlega lögð til grundvallar framkvæmdaáætlun næstu ára, en það er auðvitað ljóst, eins og hv. fyrirspyrjanda, fjárlaganefndarmanni, er vafalaust ljóst, að framkvæmdahraðinn mun fara eftir þeim fjárveitingum sem til verksins renna. Eins og vel er kunnugt er erfitt í ári hvað slíkar fjárveitingar varðar. Stjórnir Rarik og Orkubús Vestfjarða hafa vakið athygli á því að ef leggja á þennan kostnað alfarið á fyrirtækin og notendur þeirra, þá munu það leiða til hærra orkuverðs á orkuveitusvæðum fyrirtækjanna en í boði eru hjá þéttbýlissveitunum.
    Þetta er sjónarmið sem er mjög vel skiljanlegt og ég mun fyrir mitt leyti reyna að finna leið til þess að þoka framkvæmdunum áfram án þess að aukið misræmi skapist í raforkuverði. En ég vek athygli á því vegna þeirra fjárhæða sem ég nefndi áðan að við erum að tala um tölur eins og rúmar 900 millj. á sjö árum, þ.e. nokkuð á annað hundrað milljónir á ári, en á fjárlögum 1991 er 41 millj. kr. til þessa verkefnis og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru 19 millj. kr. á blaði til styrkingar dreifikerfa í sveitum.