Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:15:00 (1130)

     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svar hans. Að vísu kemur fram í svari hæstv. ráðherra að ráðuneytið hefur ekki undirbúið eða látið vinna áætlun um styrkingu þessa dreifikerfis. Ég hlýt að hvetja eindregið til þess að ráðuneytið taki til hendi við það verk. Það var einmitt tilgangur fyrirspurnar minnar að vekja athygli á þessu máli sem er mjög brýnt. Það hefur komið fram við þessa umræðu að þingmenn eru sammála um það ásamt hæstv. ráðherra að þetta er mjög brýnt verkefni.
    Hins vegar er alveg ljóst og það kemur ekki á óvart að þetta er mjög kostnaðarsamt viðfangsefni en verður engu að síður að taka til hendi við að finna lausn á því. Fyrsta skrefið er auðvitað að gera áætlun og við afgreiðslu fjárlaga þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þessa verkefnis.
    Ég nefndi það í fyrirspurn minni að ég tel að dreifiveiturnar þurfi að taka á þessu máli með ríkissjóði og Landsvirkjun. Ég tel eðlilegt að Landsvirkjun komi inn í styrkingu rafdreifikerfisins til sveita og vitna til þess að það mun vera svo meðal annarra þjóða. Þar sem mikill kostnaður er við dreifingu á orkunni eru það orkuvinnslufyrirtækin sem taka þátt í þeim kostnaði. Og ég vil leggja áherslu á að það verði skoðað sérstaklega.
    Ég vil vekja athygli á því að styrking dreifikerfisins er einungis hluti af því viðfangsefni sem blasir við. Endurbygging kerfisins er einnig brýnt viðfangsefni því að viðhald og endurbygging þessa kerfis hefur mjög víða setið á hakanum, svo ekki sé litið á styrkinguna eina út af fyrir sig.
    Ég vil bara endurtaka það að þetta er mjög mikilsvert verkefni sem við þurfum að taka á og ég hvet ráðherra eindregið til þess að láta skoða það mjög rækilega hvernig best verður að þessu staðið.