Alþjóðleg björgunarsveit

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:45:00 (1144)

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 135 hef ég borið fram fsp. til dómsmrh. um alþjóðlega björgunarsveit, sem er svohljóðandi: ,,Hvað líður starfi undirbúningsnefndar sem fjallar um framkvæmd þál. um könnun á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar sem samþykkt var 26. apríl 1990?``
    Eins og kemur fram í fsp. var samþykkt hér á Alþingi þann 26. apríl 1990 þáltill. sem ég var 1. flm. að ásamt hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni og Guðna Ágústssyni, þar segir svo: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar með aðsetur á Íslandi sem sinni björgunarmálum á Norður-Atlantshafi. Leitað verði samstarfs við þær þjóðir sem mestra hagsmuna hafa að gæta á þessu sviði.`` Þál. var síðan send forsrn. með bréfi þann 15. maí 1990 og samkvæmt skýrslu forsrh. um meðferð ályktana 112. löggjafarþings er hún send með bréfi til utanrrn. og dómsmrn. 5. og 7. sept. 1990. Segir svo að komið hafi verið á fót undirbúningsnefnd með fulltrúum ráðuneytanna og Landhelgisgæslunnar til að fjalla um efni þáltill.
    Nú vil ég spyrja: Hvað líður starfi þessarar nefndar? Hefur henni orðið eitthvað ágengt í starfi sínu og við hvaða aðila hefur hún haft samband?
    Fsp. er einföld og ég ætla ekki að hafa að sinni fleiri orð um hana.