Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:54:00 (1148)

     Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Lögum um kosningar til Alþingis var breytt 1984 og þau endurskoðuð 1987 áður en kosið var eftir þeim í fyrsta skipti 25. apríl sama ár. Markmið breytinganna var að tryggja jöfnuð milli flokka og draga úr misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu. Það misvægi hafði vaxið eftir að núv. kjördæmaskipan var lögfest árið 1959. Þingmönnum var fjölgað úr 60 í 63 og jafnframt séð til þess að nýju þingsætin og flest fyrri uppbótarsæta kæmu í hlut fjölmennustu kjördæmanna. Þrátt fyrir þessar breytingar var munurinn nálega þrír á móti einum þar sem hann var mestur 1987.
    Í vor var kosið ef tir nýju lögunum öðru sinni. Þá voru 4.072 kjósendur að baki hverjum þingmanni Reykjavíkur og 4.033 kjósendur að baki þingmanna Reykjaness. Að þessu sinni féll flakkarinn Vestfirðingum í skaut og þá eru 1.094 kjósendur að baki hverjum þingmanni þar eða nærri fjórfalt vægi miðað við Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.
    Í Reykjavík og á Reykjanesi voru á kjörskrá 117.659 manns eða rúmlega 64%. Þessi 64% atkvæðisbærra Íslendinga kusu 29 af 63 þingmönnum þjóðarinnar. Hin 36% kusu 34 þingmenn.
    Samkvæmt gildandi kosningalögum skal átta þingsætum skipt fyrir hverjar kosningar milli kjördæmanna til að jafna vægi atkvæða. Við þá skiptingu er lögð til grundvallar tala kjósenda á kjörskrá í hverju kjördæmi í næstu kosningum á undan. Að óbreyttum lögum er ljóst að eitt þingsæti færist frá Norðurl. e. til Reykjaness í næstu kosningum. Dóms- og kirkjumrn. hefur þegar birt auglýsingu þessa efnis.
    Kosningalögin frá 1987 hafa verið gagnrýnd fyrir að þau væru of flókin. Ég tek undir þá gagnrýni. Kosningalög ættu að vera svo einföld að hver maður gæti skilið þau reiknilögmál sem liggja til grundvallar. Nú er það aðeins á færi sérfræðinga að reikna út úrslit kosninga.
    Alvarlegasti galli laganna er þó sá ójöfnuður sem enn er viðhaldið og fer jafnvel vaxandi á ný eins og síðustu kosningar sýna og enn viðgengst að á þingi sitji menn með innan við 500 atkvæði að baki sér meðan utan þings eru frambjóðendur með það fylgi margfalt. Við fyrirhugaða endurskoðun kosningalaga er brýnt að sett verði skýr markmið og væri fróðlegt að heyra hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í þeim efnum. Því spyr ég forsrh.:
    ,,Hvenær hefst endurskoðun núgildandi kosningalaga ,,í þeim tilgangi að tryggja jafnræði með kjósendum``, sbr. stefnuuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og hvernig verður staðið að þeirri endurskoðun?``