Greiðsla kostnaðar við pólitíska fundi

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:15:00 (1159)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 109 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða reglur gilda um greiðslu kostnaðar við almenna stjórnmálafundi ráðherra og kynningarfundi á vegum einstakra ráðherra í nafni ráðuneyta, þar með talinn auglýsingakostnaður?``
    Það hefur fæst í vöxt að ráðherrar ferðist um landið í nafni einstakra ráðuneyta. Það er auðvitað af hinu góða að þingmenn, þar með taldir ráðherrar, kynni sér ástand mála úti um landið með því að ferðast um og ræða við fólk. Einnig er sjálfsagt að ráðuneyti hafi eðlilega upplýsingaskyldu gagnvart almenningi. Ég tel hins vegar óeðlilegt að á vegum ráðuneyta séu haldnir fundir um stórpólitísk ágreiningsmál þar sem sjónarmið ráðherra eru þau einu sem kynnt eru á fundinum.
    Á 112. löggjafarþingi spurði ég þáv. forsrh. nákvæmlega sömu spurningar. Í umræðum um þá fsp. á sínum tíma upplýsti hæstv. þáv. forsrh. að engar reglur giltu um fundarferðir ráðherra.
    Hv. þm. Geir H. Haarde upplýsti þá við umræðuna að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hefðu komið fram ábendingum í skýrslu sinni til Alþingis um að eðlilegt væri að setja reglur um ferðalög ráðherra á kostnað ráðuneyta. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Oft kann að vera vandasamt að kveða upp úr um hvenær ráðherra er á ferð á vegum embættis síns og hvenær ekki. En eðlilegt er að ferðalög á vegum stjórnmálaflokka, ýmissa samtaka innan lands eða utan eða einkaaðila greiðist ekki af almannafé. Ástæðulaust er annað en að um þessi efni gildi ákveðnar viðmiðunarreglur svo sem tíðkast í nálægum löndum.``
    Þetta var upp úr skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.
    Þess vegna hef ég, virðulegur forseti, leyft mér að endurtaka þessa spurningu og vænti þess að forsrh. hæstv. geti gefið okkur upplýsingar um hvaða reglur gilda um þessi efni.