Greiðsla kostnaðar við pólitíska fundi

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:17:00 (1160)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þessarar fsp. verð ég að svara með sama hætti og fyrirrennari minn svaraði að um þessa þætti gilda engar formlegar reglur. Það er heldur ekki hægt að segja að ótvíræð venja eða ótvíræð hefð hafi skapast um þessa þætti því ráðherrar hafa mjög misjafnlega hagað málum í þessum efnum.
    Eins og dæmið stendur í dag verður hvert ráðuneyti og hver ráðherra að ákveða hverju sinni hvort til að mynda fundur sé eðlileg kynning á störfum og verkefnum ráðuneytis hans á hverjum tíma eða hvort fundur sé óviðkomandi því ráðuneyti og því ætti annar að bera þann kostnað sem af slíku fundahaldi hlýst. Viðkomandi ráðherra verður þá að búa við og svara gagnrýni sem fram kemur á mati hans á hverju tilviki fyrir sig.
    Það er líka rétt að benda á að iðulega hefur verið kvartað yfir því að ráðherrar sinni ekki nógu vel upplýsingaskyldum sínum og reyndar hafa þáltill. komið fram og verið samþykktar um það að ráðherrar sinntu upplýsingaskyldum sínum betur en þeir hafa að jafnaði gert.
    Það má enn benda á að álitaefni, sem þessu tengist, eru ágreinings- og álitaefni um útgáfur hvers konar á efni sem frá ráðherrum og ráðuneytum hafa komið, hvort þar sé um að ræða almennt upplýsingaefni eða hreinan og jafnvel vilhallan pólitískan áróður sem sendur er út á kostnað viðkomandi ráðuneytis, jafnvel skömmu fyrir kosningar eins og dæmin sanna. Um þetta gilda heldur engar reglur.
    Í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að setja reglur um hvað eina í þjóðfélaginu. Menn ættu að geta metið með nokkuð eðlilegum hætti, hver ráðherra fyrir sig og síðan sætt þá almennri gagnrýni og setið með almennum hætti undir ábyrgð af meðferð þeirra á fjármunum ráðuneytis, í þessu tilviki vegna fundahalda sjálfra sín eða ráðuneytis.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem vitnað var til yfirskoðunarmanna ríkisreikninga að æskilegt væri að hafa einhverjar viðmiðunarreglur en ég vara við þeirri trú að menn geti fundið algildar reglur sem tækju til hvers tilviks fyrir sig.