Aðstöðugjald

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:30:00 (1167)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Á árinu 1990 starfaði á vegum fjmrn. nefnd sem fjallaði um endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Markmið þeirrar endurskoðunar var einkum að jafna samkeppnisstöðu innlendra útflutnings- og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum.
    Í fyrstu tillögu nefndarinnar sem kom út í nóv. 1990 kom fram að rétt væri að fella niður aðstöðugjaldið í núverandi mynd og var það einn liður í heildarendurskoðun á skattlagningu atvinnurekstursins. Segja má að þetta hafi verið aðdragandinn að því að í byrjun þessa árs skipaði ég nefnd til að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga einkum með tilliti til nýrra hugmynda og tillagna um skattlagningu atvinnulífsins. Nefndinni var ætlað að gera tillögur um hvort fella ætti niður aðstöðugjaldið og hvaða breytingar þurfi þá að gera á öðrum tekjustofnum sveitarfélaga. Nefndinni var einnig ætlað að bera saman tekjustofna sveitarfélaga hérlendis og í nágrannalöndunum. Fyrstu mánuði ársins var einkum unnið að gagnaöflun á vegum nefndarinnar. En skömmu eftir að núv. ríkisstjórn kom til starfa ákvað ég í samráði við fjmrh. að nefndin skyldi vinna áfram á grundvelli upphaflegs skipunarbréfs síns enda skýrt tekið fram í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að lög um tekjustofna sveitarfélaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að samræma skattlagningu fyrirtækja því sem gerist í nágrannalöndunum. Við samanburð á tekjustofnum sveitarfélaga hér og í nágrannalöndunum kemur í ljós að aðstöðugjöld í þeirri mynd sem hér hafa tíðkast eru þar ekki til en tekjur sveitarfélaganna koma að langmestu leyti af tekjuskatti einstaklinga og framlögum frá ríkinu. Skattlagning atvinnulífsins er þar fyrst og fremst á vegum ríkisins.
    Ég ætla ekki að rekja að neinu ráði umræðuna um galla aðstöðugjaldsins í skattalegu tilliti. Það hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Skattstofninn er óheppilegur þar sem gjaldið er lagt á heildarreksturskostnað fyrirtækja og tekur því raun ekkert mið af afkomu þeirra. Aðstöðugjaldið skekkir samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart erlendum keppinautum þar sem slíkt gjald er óþekkt erlendis. Einnig er ekki hægt annað en að benda á í þessu sambandi hve tekjur sveitarfélaga af aðstöðugjaldi eru geysilega misjafnar miðað við íbúa. Þannig er aðstöðugjaldið u.þ.b. fjórðungur af skatttekjum Reykjavíkurborgar árið 1990 en innan við 15% hjá öðrum sveitarfélögum. Árið 1991 voru tekjur Reykjavíkur af aðstöðugjaldi tæplega 28 þús. kr. á hvern íbúa samanborið við um 15 þús. kr. að jafnaði í öðrum sveitarfélögum. Ég tel engan vafa á því að aðstöðugjaldið verður fellt niður. Það er að mínu mati bara spurning um tíma. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að sveitarfélögin fái jafngildan tekjustofn í staðinn og auðvitað er eðlilegt að spurt sé hvaða tekjustofn það eigi að vera. Í fljóti bragði virðist mér helst koma til álita að sveitarfélögin fái aukinn hlut í tekjuskatti einstaklinga, þ.e. í staðgreiðslunni, en jafnframt lækki hlutur ríkisins. Í staðinn taki ríkið að sér skattlagningu atvinnulífsins. Einnig kemur til álita að auka nokkuð framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Breytingar á því kerfi sem við höfum búið við í þessu efni eru að sjálfsögðu vandasamar og þar þarf að líta á skattlagningu atvinnulífsins í heild.
    Virðulegi forseti. Með vísun til þess sem ég hef rakið svara ég fsp. játandi. En hún snerist um að hvort þess væri að vænta að lagt yrði fram stjfrv. um niðurfellingu aðstöðugjalds. Ég vonast til þess að geta að vönduðum undirbúningi loknum lagt fram frv. sem felur í sér niðurfellingu aðstöðugjaldsins og gerir ráð fyrir öðrum tekjustofni til handa sveitarfélögunum í staðinn. Þessu þurfa auðvitað einnig að fylgja breytingar á skattlagningu ríkisins á atvinnureksturinn.