Aðstöðugjald

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:38:00 (1171)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Mér fannst þær athugasemdir sem fram komu hjá hv. 8. þm. Reykn. harla sérkennilegar. Hv. þm. sagði að hér væri um að ræða ræðu fyrrv. félmrh. í fyrri ríkisstjórn. Ég vil að það komi skýrt fram svo hv. þm. velkist ekki í vafa um að ég skipti ekkert um skoðun í þessu efni þó ég gegni embætti félmrh. í annarri ríkisstjórn. Þannig að mín afstaða til þessa máls er algerlega óbreytt. Varðandi (Gripið fram í.) það atriði, virðulegi þingmaður, að Sjálfstfl. hafi beitt neitunarvaldi í þessu máli þá er það alrangt. Sú nefnd, sem var skipuð á sínum tíma, er enn að störfum. Hún er skipuð fulltrúa fjmrn. og fulltrúum félmrn. og Sambandi sveitarfélaga, þannig að Sjálfstfl. á ekki fulltrúa í þeirri nefnd. Nefndin hefur fyrst og fremst unnið að gagnaöflun í þessu máli, þ.e. skoðað hvernig skattlagningu atvinnulífsins er háttað hérlendis og annars staðar. Skoðað tekjustofna sveitarfélaga almennt og á að leggja fram hugmyndir og valkosti hvað það væri sem gæti tekið við ef aðstöðugjaldið verður lagt niður.
    Ég vænti þess að þessi nefnd skili af sér innan tíðar og þá verður málið tekið upp í ríkisstjórninni. Í framhaldi af því mun ég óska eftir því að fulltrúar stjórnarflokkanna komi að þessu máli og þá reynir auðvitað fyrst á það sem hv. þm. nefndi hér áðan. En ég tel enga ástæðu til að ætla að Sjálfstfl. og Alþfl. séu ekki samstiga í þessu efni vegna þess að hér er um að ræða yfirlýsta stefnu beggja flokkanna um að fella beri niður aðstöðugjaldið.