Orkuverð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:40:00 (1172)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
     Hæstv. forseti. Fram hefur komið í fréttum að verðlagningu á orku frá Landsvirkjun er hagað þannig að dreifiveitur sem kaupa orku séu knúnar til að framleiða raforku með olíu ef notkun þeirra er meiri en það hámark sem samningur þeirra við Landsvirkjun kveður á um. Mér er ekki kunnugt um hve mikla orku er um að ræða en ég hef nokkrar upplýsingar frá Vestmannaeyjum þar sem búa u.þ.b. 2% þjóðarinnar. Þeir þurfa að greiða 86 kr. og 82 aura fyrir hverja kwst. sem keypt er af Landsvirkjun umfram umsamið magn á sama tíma og olía á hverja kwst., sem framleidd er í þeirra dísilrafstöð, kostar 5 kr. og 28 aura. Verðið frá Landsvirkjun er meira en sextánfalt verðið þegar framleitt er með hinni erlendu orku. Það er því augljóst að rafveita sem stendur frammi fyrir slíku getur ekkert annað gert en að nota hina erlendu orku. En heildarframleiðslukostnaður með erlendri orku mun vera u.þ.b. helmingi hærri en verðið á hinni umsömdu orku frá Landsvirkjun.
    Með þessari verðlagningu Landsvirkjunar er augljóst að hún ætlast alls ekki til að þessi orka sé keypt af henni þrátt fyrir hve nú er mikið af ónotaðri orku í kerfi hennar allt árið um kring. Þær upphæðir, sem hér er um að ræða, hljóta samtals að vera allháar því að áætlað er t.d. að framleiðslukostnaður raforku frá dísilstöð verði aðeins í Vestmannaeyjum í þessum mánuði á annað hundrað þúsund krónur. Það hefði Landsvirkjun fengið ef hún hefði hagað verðlagningu sinni þannig að verð hennar væri samkeppnisfært. Það má því segja að þau verðmæti sem þarna er um að ræða, framleiðslukostnaður með olíu, séu verðmæti sem fara algerlega í súginn. Því að öðrum kosti hefði Landsvirkjun getað fengið nokkuð upp í þær 800 millj. kr. sem rætt var um áðan að nú hvíldi á henni vegna Blönduvirkjunar. Ég hef því borið fram á þskj. 127 fsp. til hæstv. iðnrh. um hvort ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að Landsvirkjun breyti gjaldskrá sinni á meðan mikil ónotuð raforka er fyrir hendi þannig að ekki verði ódýrara að nota innflutta orkugjafa en innlenda orku.