Orkuverð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:51:00 (1177)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Það voru háar upphæðir sem hv. síðasti ræðumaður nefndi sem loðnuverksmiðjurnar þurfa að greiða aukalega vegna reglna sem Landsvirkjun hefur sett varðandi afltoppinn. Mér þykir mjög merkilegt ef Landsvirkjun treystir sér til að selja eða gefa, vil ég kannski heldur segja, orkuna til erlendra álfursta en getur ekki lækkað orkuna örlítið til innlendrar notkunar. Þetta þykir mér mjög merkilegt og ég skora á hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir því eins og hann getur innan stjórnar Landsvirkjunar að þeir endurskoði afstöðu sína. Þar sem nú er til veruleg umframorka í landinu er það mjög eðlilegt að meðan svo er verði hún seld við vægu verði til innlendra aðila.