Lækkun húshitunarkostnaðar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:01:00 (1181)

     Fyrirspyrjandi (Sigurður Þórólfsson) :
     Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. iðnrh. á þskj. 137 um lækkun húshitunarkostnaðar er svohljóðandi:
    ,,Hvað líður framkvæmd á áformum stjórnvalda um lækkun húshitunarkostnaðar, sbr. till. til þál. frá ráðherra um það efni á sl. vori og skýrslu orkuverðsjöfnunarnefndar frá því í mars 1991?``
    Tilefni þessarar fyrirspurnar er það að í fyrra skipaði iðnrh. nefnd til að gera tillögur um verðjöfnun á raforku og á grundvelli þeirra tillagna sem frá nefndinni komu var lögð fram till. til þál. þar sem gert er ráð fyrir að kostnaður við húshitun með rafmagni lækki verulega. Þessu markmiði átti að ná í þremur áföngum á næstu tveimur árum og var fyrsta skrefið stigið á vordögum 1991. Þá var niðurgreiðsla aukin úr 79 aurum í 126 aura á kwst. Raforka til húshitunar hefur að vísu verið greidd niður frá því í október 1982 og var miðuð við 40 þús. kwst. ársnotkun, þegar umrædd nefnd var að störfum, en nú brá svo við að um leið og niðurgreiðslan var aukin var orkumagnið sem greitt var niður lækkað niður í 30 kwst. á ári eða niður fyrir það mark sem var miðað við í frv. En þrátt fyrir það lækkaði orkuverð til húshitunar verulega þegar þessi 1. áfangi kom til framkvæmda, en sá ábati þurrkaðist út með verðhækkunum, sem urðu á árinu, á rafmagni, 1. júlí og aftur 1. okt. um 5% í hvort skipti. En niðurgreiðslurnar héldust þó óbreyttar að krónutölu. Mér sýnist því að staðan sé sú að sé miðað við 35 þús. kw-ársnotkun, þá séu kostnaðartölurnar þær að í ársbyrjun hafi ársnotkunin verið 77.350 en í október, eftir að verðhækkanirnar eru komnar til framkvæmda, sé hún 78.050 eða ívið hærri en var áður en þessar aðgerðir komu til framkvæmda.
    Það er því ljóst að við stöndum nánast í sömu sporum nú hvað varðar orkuverð til

húshitunar eins og þegar tillögur nefndarinnar voru settar fram þannig að þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur af raforku til húshitunar erum við ekki nær því en áður að jafna aðstöðu landsmanna að þessu leyti. Því spyr ég hæstv. iðnrh. hvort hann muni ekki beita sér fyrir jöfnuði á orkuverði til húshitunar hjá öllum þeim sem nota raforku til að hita híbýli sín í samræmi við þáltill. sem flutt var hér, enda vænti ég þess að hann sé enn sömu skoðunar í þessu máli og fyrir kosningar þegar umrædd þáltill. var lögð fram og kynnt. Þetta er réttlætismál sem ég tel að verði að ná fram að ganga.
    Mig langar aðeins í framhaldi af þessu að taka undir orð hv. 2. þm. Vestf. um orkuverð og hækkanir hjá Rafmagnsveitum ríkisins að undanförnu. Þessar hækkanir bitna fyrst og fremst á þeim atvinnufyrirtækjum sem hafa sveiflukenndan og árstíðabundinn rekstur í starfsemi sinni og þetta stórhækkar orkukostnaðinn hjá þessum fyrirtækjum. Ég veit t.d. að hjá litlu fyrirtæki í minni sveit hækkar orkukostnaðurinn um 300 þús. aðeins við þessa aðgerð.
    Þegar svo er komið málum að fyrirtæki sjá sér hag í því að kaupa dísilvélar og keyra á olíu á sama tíma og mikil ónýtt orka er til í landinu segi ég fyrir mig að ég skil ekki þá hagstjórn sem í þessu felst. Ég held satt að segja að réttara væri að selja þá orku, sem annars rynni ónotuð til sjávar, til að byggja upp framleiðsluatvinnulíf í landinu því að hvað sem líður eflingu þjónustugreina og sölu verðbréfa, þá lifum við ekki á því til lengdar að láta peninga og verðbréf skipta um eigendur. Við verðum að hlúa að þeim greinum sem eru uppspretta verðmætanna því að ef við kippum vatnsleiðslunni úr sambandi við brunninn fáum við ekki lengi vatn úr rörunum. Það er staðreynd.