Hópferðir erlendra aðila

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:21:00 (1188)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans, en verð að lýsa vonbrigðum mínum með að framkvæmdarvaldið fari ekki að ályktunum Alþingis. Það kemur greinilega fram í þessari álytkun að endurskoða skuli þessa reglugerð. Hún verður auðvitað að eiga sér stoð í lögum. Ég veit ekki hvernig þessi reglugerðardrög litu út þegar þau voru send til umsagnar en það hlýtur að hafa verið hægt að breyta þeim á þann veg að þau brytu ekki í bága við lög. Mér þykir því slæmt að heyra að ekki skuli farið eftir því sem Alþingi ákveður, og raunar ámælisvert.
    Varðandi málið sjálft þá kemur það greinilega fram í nál. atvmn. á sínum tíma að þeir sem þar skrifuðu undir telja að eðlilegt sé að í öllum hópferðum á Íslandi skuli vera leiðsögumaður með próf eða viðurkenningu frá Ferðamálaráði Íslands. Mér þykir þetta mjög eðlilegt ákvæði og vil benda á að víða erlendis, t.d. í Grikklandi, Portúgal og á Spáni og e.t.v. víðar, eru gerðar þær kröfur að í hópferðum þar í landi þurfi að vera leiðsögumenn sem hafa próf frá þarlendum leiðsöguskóla eða samsvarandi skóla eða hafa farið á einhvers konar námskeið. Yfirvöld í þessum löndum standa með leiðsögumönnum, þ.e. þau gera þessar kröfur og eru mjög hörð á því að þeim sé framfylgt. Það hefur verið mjög mikill misbrestur á því hér á landi að kröfur séu gerðar um þetta og er meira segja svo komið að ein íslensk ferðaskrifstofa upplýsti á nýafstaðinni ferðamálaráðstefnu að hún hefði sótt um að fá samþykki fyrir 60 erlendum leiðsögumönnum í þeirra ferðir næsta ár vegna þess að ef þeir fá erlenda leiðsögumenn geta þeir boðið þeim lakari kjör heldur en innlendum. Mér þykir mjög slæmt ef við erum komin út í það að flytja hluta af þessari mikilvægu atvinnugrein út úr landinu með þessum hætti.
    Ég vil minna á hversu mikilvægt er að hafa innlenda leiðsögumenn, þ.e. leiðsögumenn sem þekkja landið, hafa þekkingu á náttúruverndarlögum, þekkja slysagildrur, hafa góða þekkingu á sögu landsins, jarðfræði og fleira, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, en að við setjum ákveðnar kröfur í þessu sambandi.
    Ég vil minna á hvað gerðist sl. sumar þegar hópur fólks réðist á Tjörneslögin og má kenna því um að þar hafi verið um vanþekkingu að ræða. Þess vegna skora ég á hæstv. samgrh. að vinna að þessu máli þannig að það verði í þeim anda sem Alþingi hefur ákveðið.