Hópferðir erlendra aðila

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:24:00 (1189)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Það er að vísu ekki við mig að sakast um það að ekki var gengið frá reglugerðinni fyrir 1. jan. á þessu ári og get ég vel skilið óþolinmæði hv. þm. en ég hygg að höfuðmáli skipti að reglugerð sem sett verður sé skynsamleg og svari bæði til þeirra krafna og þarfa sem óhjákvæmilegt er að gera til slíkrar smíði. Verði sem sagt ferðaþjónustunni til framdráttar.
    Ég vil í annan stað segja að bæði hljóta starfsréttindi og menntunarmál leiðsögumanna að koma til athugunar. Ég álít að þeim málum sé skipað á þann veg nú að það hljóti að koma til álita að nokkur breyting verði á. Þau mál eru einnig til athugunar í samræmi við aðra þætti ferðamála og skal ég ekki gera það nánar að umtalsefni hér.