Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:26:00 (1190)

     Fyrirspyrjandi (Sigurður Þórólfsson) :
     Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 134 og hún er svohljóðandi:
    ,,Er lokið hönnun á mannvirkjum vegna vegar- og brúargerðar yfir Gilsfjörð?``
    Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð hefur verið mikið áhugamál hjá okkur Breiðfirðingum allt síðan árið 1984. Það er búið að vinna mikið að þessu máli, bæði af heimamönnum og eins sameiginlega af þingmönnum Vesturl. og Vestf.
    Á síðustu árum hefur verið unnið á vegum héraðsnefnda, bæði Austur-Barðastrandasýslu og Dalasýslu, að mótun atvinnuuppbyggingar og nýrrar stefnu í atvinnumálum á þessu svæði og forsenda þess að það sé hægt er að þarna komi tenging á milli Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu með vegar- eða brúargerð yfir Gilsfjörð.
    Vegurinn fyrir Gilsfjörð hefur verið mjög hættulegur. Þar hafa orðið grjóthrun og snjóflóðahætta er þarna og vegurinn er ófær langtímum á vetrum, þarna hefur orðið banaslys a.m.k. einu sinni og stórslys hafa orðið þarna oftar á síðustu árum.
    Eins og ég sagði áðan er mikilvægt fyrir byggðirnar við innanverðan Breiðafjörð að tengja þessi svæði og það er eiginlega forsenda fyrir því að uppbygging geti hafist þarna á nýjum grunni. Til þess að hægt sé að standa við þá áætlun sem gerð hefur verið og samþykkt af þingmönnum á Vesturlandi og Vestfjörðum, að framkvæmdir geti hafist þarna árið 1993, langar mig til að vita hvernig staðan væri í þessum málum með hönnun og undirbúning á mannvirkjum að öðru leyti.