Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:28:00 (1191)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Undirbúningur að vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð hefur staðið í nokkur ár sem kunnugt er. Á sl. vetri lagði Vegagerðin fram tillögu um lausn málsins. Samkvæmt henni verður farin ysta leiðin af þeim sem til skoðunar voru, þ.e. af Kaldrana sunnan og yfir í Króksfjarðarnes. Náttúruverndarráð hefur í megindráttum samþykkt þessa tillögu Vegagerðarinnar. Tillögugerðin er að venju byggð á svonefndri forhönnun en þá eru helstu þættir mannvirkja hannaðir að því marki að meta megi kostnað með nægilegri nákvæmni til að unnt sé að bera saman leiðir og lausnir.
    Skýrslur um þessar athuganir liggja fyrir í sérstöku riti sem Vegagerð ríkisins gaf út nú í marsmánuði og er hv. þm. handhæg.
    Við afgreiðslu vegáætlunar á Alþingi sl. vetur og umræður um langtímaáætlun í vegagerð á sama tíma var tekið mið af þessari tillögu. Fjárveitingar í vegáætlun eru árið 1993 28 millj. kr., en árið 1994 66 millj. kr. Í drögum að langtímaáætlun er síðan fjárveiting á öðru tímabili, þ.e. á árunum 1995--1998, 660 millj. kr. Eins og sést af þessum tölum er ekki gert ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist við Gilsfjörð samkvæmt vegáætlun á árinu 1993 eins og fram kom hjá hv. þm. Vegagerðin heldur áfram tæknilegum undirbúningi verksins þannig að það verði tilbúið til útboðs þegar fjármagn liggur fyrir skv. vegáætlun. Meðal þátta sem vinna þarf má nefna verkhönnun, skipulagslega meðferð, samninga við landeigendur og gerð útboðsgagna. Á þessu stigi er ekkert sem bendir til annars en að þessum undirbúningi ljúki í tæka tíð.