Barnalög

32. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:51:00 (1198)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Frv. þetta til nýrra barnalaga sem hér er mælt fyrir er samið af sifjalaganefnd. Í henni eiga sæti Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, sem er formaður nefndarinnar, Baldur Möller, fyrrv. ráðuneytisstjórni, Drífa Pálsdóttir deildarstjóri og Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar. Ritari nefndarinnar hefur verið Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri.
    Eftir að sifjalaganefnd hafði lokið við frumgerð að frv. ásamt yfirlitsgreinargerð voru gögn þessi send 14 aðilum til umsagnar. Velflestir þeirra hafa sent nefndinni umsagnir, og það eru: Barnaverndarráð Íslands, Bernskan --- Íslandsdeild OMEP-samtakanna, Dómarafélag Íslands, félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisráð, lagadeild Háskóla Íslands, Lögmannafélag Íslands, réttarfarsnefnd, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa og Sýslumannafélag Íslands.
    Umsagnirnar eru í heild jákvæðar um efnisreglur frv. en allmargar athugasemdir komu fram um réttarfarsatriði frá Dómarafélagi Íslands og réttarfarsnefnd, þar á meðal vegna fyrirhugaðs frv. til laga um meðferð einkamála. Margar ábendingar um réttarfarsákvæði hafa verið teknar til greina og ýmsar aðrar, ýmist með breytingum á frumvarpstextanum eða með ummælum í athugasemdum.
    Í athugasemdum með frv. er þeim breytingum sem í því felast frá núgildandi barnalögum lýst ítarlega. Ein meginbreyting frv. er fólgin í heimild fyrir foreldra til að semja um sameiginlega forsjá barna sinna við skilnað eða slit óvígðar sambúðar og á sama við um foreldra óskilgetinna barna sem ekki hafa verið í samvistum.
    Önnur meginbreyting frá núgildandi barnalögum felst í flutningi ýmissa mála er varða börn og foreldra þeirra úr dómsmrn. til sýslumanna eins og stefnt er að með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Má nefna umgengnismál og meðlagsmál ýmiss konar. Í frv. er gert ráð fyrir að ágreiningsmál milli foreldra er varða börn þeirra fari til úrlausnar sýslumanna á frumstigi en með málskotsrétti til ráðuneytisins. Þessi breyting felur í sér að frumúrlausn þessara mála færist heim í hérað. Ætti þetta að leiða til hagræðis fyrir þá sem óska úrlausnar um þessi mál þar sem þeir geta leitað til sýslumanns í sínu umdæmi ef barn býr þar einnig. Sáttaumleitan í slíkum málum verður vafalítið auðveldari og árangursríkari, a.m.k. í þeim málum þar sem aðilar eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Fram til þessa hafa mál þeirra iðulega verið rekin skriflega. Sýslumenn

eru oft kunnugir högum aðila eða hafa eftir atvikum tök á að kynna sér hagi þeirra af eigin raun. Heimild til málskots til ráðuneytisins tryggir samræmdar niðurstöður í þessum málum og horfir til réttaröryggis. Frá framangreindri meginreglu, um að ágreiningsmál foreldra færist til sýslumanna, er þó eitt frávik þar sem ráð er fyrir gert að forsjármál fari ekki til sýslumanna heldur verði í ríkari mæli en nú er beint til dómstóla til ákvörðunar. Samkvæmt frv. má þó bera forsjármál undir ráðuneytið ef báðir foreldrar æskja þess. Í flestum þeim ríkjum sem búa við svipað réttarkerfi og hér á landi eru forsjármál alfarið falin dómstólum til meðferðar en ég tel rétt að foreldrum sé gefinn kostur á að leita úrlausnar ráðuneytisins ef báðir fara þess á leit enda liggur þar mikil þekking á þessum vandasömu málum og reynslan hefur sýnt að foreldrar kjósa oft fremur að leita til ráðuneytisins en að fara dómstólaleiðina, sem bæði er formfastari, dýrari og seinfarnari.
    Varðandi umgengnismálin vil ég sérstaklega benda á það nýmæli frv. að meðan forsjármál er til meðferðar getur sýslumaður ákveðið til bráðabirgða skipan umgengnisréttar til handa því foreldri sem barn býr ekki hjá uns forsjármáli er ráðið til lykta. Er hér bætt úr brýnni þörf til að leysa úr málum þegar svo stendur á. Eins og í núgildandi barnalögum er lagt til að einu þvingunarúrræðin til framkvæmdar umgengnisúrskurði verði álagning dagsekta. Eru ákvæði frv. um dagsektir mun ítarlegri en þau sem nú eru í barnalögum auk þess sem upphæð dagsektanna er hækkuð og bundin lánskjaravísitölu.
    Í frv. er að finna réttarfarsákvæði um dómsmál vegna faðernis barna sem eru mun einfaldari en réttarfarsákvæði núgildandi barnalaga, svo og réttarfarsreglur um meðferð forsjármála fyrir dómstólum en meðferð beggja málaflokkanna hlýtur að sæta afbrigðilegri meðferð einkamála um margt.
    Þá eru í frv. ítarlegar reglur um meðferð og úrlausn stjórnvalda í málum samkvæmt því og er þeim ætlað að tryggja vandaða málsmeðferð hjá stjórnvöldum, en þær fjalla m.a. um lögsögu í þessum málum, leiðbeiningarskyldu og sáttaumleitan stjórnvalda, rétt aðila til að kynna sér gögn máls og að tjá sig um málið, form og efni úrskurða, stjórnsýslukæru og fleira af því tagi.
    Helstu nýmæli frv. fyrir utan það sem ég hef rakið eru þau að lagt er til að hugtakið skilgetin börn og óskilgetin verði afnumin í barnalögum og að kveðið verði á um réttarstöðu barna samfellt og án þessara grunnhugtaka. Í frv. er einnig lagt til að lögfest verði sú mikilvæga regla að barn sem getið er við tæknifrjóvgun skuli teljast barn eiginmanns eða sambúðarmanns móðurinnar. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum greinum barnalaganna um meðlagsgreiðslur og er þeim ætlað að einfalda og skýra núgildandi ákvæði laganna fremur en breyta þeim að efni til. Þó er þar að finna heimild til að úrskurða um meðlagsgreiðslur með börnum til bráðabirgða gegn Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. þar til endanlegum úrskurði á hendur meðlagsskyldu foreldri verður við komið. Þetta á þó einungis við þegar fyrirsjáanlegt er að mál muni dragast á langinn þar sem foreldri sem krafa beinist gegn er búsett erlendis eða sérstökum örðugleikum er bundið að ná til þess.
    Þá eru í frv. ítarlegri ákvæði um forsjá barna við andlát foreldra og um samninga foreldra um forsjá en í núgildandi barnalögum. Loks hefur frv. að geyma nýmæli um rétt barna til að tjá sig í forsjár- og umgengnismálum. Á þetta skilyrðislaust við börn 12 ára og eldri nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barn eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að ræða við yngri börn ef slíkt þykir réttmætt miðað við aldur þeirra og þroska og á hér ekki síður við sá fyrirvari að þetta skuli ekki gert ef það telst skaðvænlegt fyrir barnið sjálft. Gert er ráð fyrir að viðtöl við börn fari almennt fram á vegum barnaverndarnefnda eða að sérstaklega tilkvaddir kunnáttumenn annist þau eftir nánari ákvörðun stjórnvalds eða dómstóls, en dómari eða

handhafi stjórnvalds geta vissulega einnig rætt við barnið. Með þessu er lagt til að lögskrá reglur sem er yfirleitt beitt í lagaframkvæmd og eru mikilvæg grundvallaratriði um rétt og stöðu barna.
    Þá er einnig í frv. það nýmæli að skipa má barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls ef sérstök þörf er á því og er þóknun hans greidd úr ríkissjóði. Með talsmanni er t.d. átt við fagmann á sviði sálfræði, barnageðlækninga eða félagsráðgjafar sem hefði það hlutverk að veita barni sem verður bitbein foreldra í sérstaklega erfiðum forsjárdeilum liðsinni sitt þegar úrlausnaraðili telur barninu brýna þörf á stuðningi vegna málarekstursins. Er ráð fyrir gert að heimild þessi verði tiltölulega sjaldan nýtt en einnig kæmi til greina að leita eftir liðsinni barnaverndarnefndar til stuðnings barni, einkum ef umsagnar nefndarinnar í forsjármálinu hefur ekki verið beiðst.
    Eitt mikilsverðasta nýmæli frv. varðar heimild foreldra til að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eins og ég hef áður vikið að. Samkvæmt núgildandi rétti skal forsjá barna skilyrðislaust vera óskipt í höndum annars foreldris eftir skilnað eða samvistarslit en hér er gert ráð fyrir að foreldrar, sem hafa til þess vilja og getu, megi semja um sameiginlega forsjá barna sinna. Tel ég það skynsamlega niðurstöðu að foreldrar geti farið sameiginlega með forsjá barna sinna og jafnframt og ekki síður að barnið sjálft eigi rétt á að njóta forsjár beggja foreldra.
    Við Íslendingar erum síðastir þjóða á Norðurlöndum til að heimila sameiginlega forsjá. En hún þykir hafa gefið góða raun annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Ég legg sérstaka áherslu á að grundvöllurinn að sameiginlegri forsjá í þessum tillögum er samkomulag foreldra. Samkvæmt því verður sameiginleg forsjá einungis heimiluð að ósk beggja foreldra standi til þess. Í því felst það skilyrði að foreldrarnir séu sammála um flest atriði er varða barnið og uppeldi þess. Á það verður lögð áhersla að foreldrum verði leiðbeint um þetta efni áður en samningur um sameiginlega forsjá er staðfestur. Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. er lagt til að við gerð samnings um sameiginlega forsjá skuli foreldrum skylt að taka ákvörðun um hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði að hafa búsetu. Það foreldra sem barn á lögheimili hjá á réttarstöðu einstæðs foreldris til að taka við meðlagsgreiðslum með barni, mæðra- eða feðralaunum og barnabótum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera ef því er að skipta. Foreldrar geta síðan samið sín á milli um skiptingu greiðslna þessara ef svo horfir. Það foreldra sem barn á lögheimili hjá á einnig réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum og nýtur enn fremur þeirra hlunninda sem ríki og sveitarfélög bjóða einstæðum foreldrum auk þess sem ég hef áður nefnt.
    Sýslumenn skulu leiðbeina foreldrum rækilega um skilyrði sameiginlegrar forsjár og réttaráhrif er henni fylgja áður en þeir staðfesta samning foreldra þar að lútandi. Enn fremur mun dómsmrn. gefa út leiðbeiningar um sameiginlega forsjá ef heimild þessi verður lögfest. Ef forsendur fyrir sameiginlegri forsjá bresta getur annað foreldra krafist þess að hún verði felld niður og fer þá um framhald málsins eftir almennum ákvæðum frv.
    Ég vek sérstaka athygli á að í hugtakinu sameiginleg forsjá í þessu lagafrv. felst hvorki skylda eða ábending um það að börn skuli búa til skiptis á heimili beggja foreldra heldur er þvert á móti gengið út frá því að börn hafi að jafnaði fasta búsetu hjá því foreldranna sem þau eiga lögheimili hjá. Við treystum því að sameiginleg forsjá geti orðið til að höfða til ábyrgðarkenndar beggja foreldra og gera þá báða virka við úrlausn á málefnum er varða velferð barnanna. Þetta ætti og að stuðla að auknum og bættum samskiptum barna og foreldra.
    Þær raddir hafa heyrst að sameiginleg forsjá kunni að reynast skammgóður vermir og í reynd aðeins frestur á lausn vanda sem verði til lengdar óheppilegur börnum og foreldrum. Víst er að slík mál gætu komið upp en reynslan annars staðar á Norðurlöndum hefur sýnt að sameiginleg forsjá hefur dugað vel og að fátítt er að ágreiningur rísi síðar með foreldrum sem fara með sameiginlega forsjá.
    Ég vek athygli á að í umsögnum þeim er borist hafa við frv. er hvergi mælt gegn því að sameiginleg forsjá verði lögmælt með þeim hætti er segir í frv. Þvert á móti lýsa flestir umsagnaraðilar sig beinlínis fylgjandi slíkum hugmyndum eða fagna þeim.
    Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir þeim nýmælum sem í frv. felast og meginuppistöðu þess og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.