Barnalög

32. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 14:04:00 (1199)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta frv. að þessu sinni þar sem mér mun gefast tækifæri til þess innan allshn. að koma nánar að því og fá svör við ýmsum þeim spurningum sem hljóta að vakna þegar stigin eru jafnstór skref í breytingum á forsjármálum barna og lagt er til að gert verði með samþykkt þessa frv. Svo sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh. eru helstu breytingar sem finna má í frv. þær að nú er opnað á það að mögulegt sé að semja um sameiginlega forsjá eftir skilnað foreldra. Þá er fyrsta og stærsta atriðið sem taka verður tillit til hverjir hagsmunir barnsins eru. Það eru hagsmunir barnsins að njóta samvista við báða foreldra sína. Ég held að enginn velkist í vafa um það. En jafnframt verður að viðurkenna að aðdragandi skilnaðar og eftirmáli skilnaðar er oft býsna erfiður og ég vil leggja það til að verði þetta skref stigið í áttina að sameiginlegri forsjá þá verði það stigið með mikilli varúð og fagna ég því að í þessu frv. er t.d. gert ráð fyrir því að barn eigi ákveðið lögheimili og búsetu og hafi aðsetur aðallega hjá öðru foreldri þegar svo háttar til. Því miður þykir mér þetta ekki koma nægilega skýrt fram í lagatextanum sjálfum þótt vissulega komi það mjög vel fram í grg. og ekki síður í ræðu hæstv. dómsmrh. hér áðan.
    Ég tel nefnilega að einn helsti gallinn á sameiginlegri forsjá varði börnin og þarna er ég að vísa til reynslu sumra þeirra sem hafa haft sameiginlega forsjá erlendis þar sem slíkt er leyft í lögum því þar hafa samningar jafnvel gengið út á það að barn sé hálfa viku hjá öðru foreldri sínu og hinn helminginn hjá hinu foreldrinu. Síðan gerist það oftar en ekki að báðir foreldrar stofna fjölskyldur. Þetta leiðir til mikilla vandkvæða í sambandi við alla samninga jafnvel þótt allir séu af vilja gerðir til að láta allt ganga greiðlega fyrir sig og því miður hef ég heyrt um fremur erfið dæmi þess að sameiginleg forsjá hafi gengið illa af þessum völdum og verið sérstaklega slítandi fyrir barnið sjálft þar sem það er eilíflega verkefni foreldra tveggja fjölskyldna og úrlausnarefni þar.
    Ég heyri það á máli hæstv. dómsrmh. að það er nokkur annar andi í þessu frv. en mér þykir þetta ekki koma nógu skýrt fram í 32. gr., en 3. mgr. greinarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Foreldrar geta samið svo um að forsjá barns þeirra verði hjá þeim báðum (sameiginleg forsjá) eftir skilnað eða sambúðarslit, eða í höndum annars hvors.``
    Ákvæði 4. mgr. 33. gr. á við um samninga samkvæmt þeirri málsgrein. Og 4. mgr. 33. gr. hljóðar svo:
    ,,Samningur um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttaráhrif samnings. Hann getur synjað um staðfestingu samnings, ef hann er andstæður hag og þörfum barnsins.``
    Hér er varpað mjög þungri skyldu á herðar sýslumanns og raunar held ég að verði þessi ákvæði frv. að lögum þurfi að leiðbeina afskaplega vel og sýslumaður þurfi jafnvel

að hafa aðgang að sérfræðingum í þessum málum og geti gengið í einhvern reynslubrunn um hvernig slík mál hafa gengið fyrir sig annars staðar.
    Ég held þess vegna að óhjákvæmilegt sé að innan allshn. verði tekið sérstaklega fyrir hvort rétt sé að gera þessa breytingu og þá innan hve þröngs ramma. Ég held nefnilega að svo gott sem þetta kann að vera þegar vel gengur sé um mjög vandasamt mál að ræða.
    Ég vil einnig minna á það að nú þegar, innan núgildandi laga, sem gera ekki ráð fyrir sameiginlegri forsjá foreldra, hefur það engu að síður gerst í góðu samkomulagi foreldra að í reynd hafi verið sameiginleg forsjá. Ég vil vísa til greinar sem birtist í afmælisblaði Félags einstæðra foreldra fyrir örfáum árum þar sem einstæður faðir, sem í reynd var með sameiginlega forsjá yfir börnum sínum ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, sagði frá reynslu sinni og mælti mjög með því að þessi háttur væri hafður á þegar um mjög gott samkomulag væri að ræða og svo virtist sem jafnvel innan þess lagaramma sem var væri hægt að framkvæma þetta á þennan hátt.
    Ég vil ekki taka af skarið nú, áður en ég hef fengið öll þau gögn í hendur sem ég tel nauðsynleg, og segja að sameiginleg forsjá sé annaðhvort mjög æskileg eða alls ekki æskileg. Ég tel að þetta sé mikið álitamál og það ítrekar það að hagsmunir barnanna verði ævinlega að vera í fyrirrúmi.
    Það er sjálfsagt ýmislegt fleira sem ástæða væri til að líta á í umræðu um frv. til barnalaga en ég ætla aðeins að drepa á eitt atriði í viðbót og vík hér að 38. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir dagsektum ef foreldri sem hefur forsjá barns hindrar hitt foreldrið í að njóta umgengnisréttar við barnið. Ég veit það að í hópi þeirra sem hafa haft með slík mál að gera eru skiptar skoðanir á því hvort það sé rétt leið að beita dagsektum og ég vil gera athugasemd við það. Ég held að það þurfi að fara mjög varlega með þennan rétt og fagna því að ekki skuli þó vera gengið lengra en þetta.
    En þetta eru þau tvö atriði sem ég býst við að taka upp í hv. allshn. og vonast þá til þess að í góðu samkomulagi verði hægt að komast að niðurstöðu sem byggir á bestu fáanlegu upplýsingum.