Barnalög

32. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 14:13:00 (1200)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja fram þetta frv. til barnalaga sem er að vísu ekki alveg nýtt en tvímælalaust vel unnið og hefur verið endurskoðað, enda hið ágætasta fólk til þess valið í sifjalaganefnd.
    Samning á slíku frv. er vitaskuld mikið vandaverk og þar er komið inn á allmarga þætti í samfélaginu þannig að óhjákvæmilegt er að mínu viti að huga að ýmsum öðrum lagabálkum sem óneitanlega munu tengjast frv. ef að lögum verður. Þá vil ég fyrst af öllu nefna lög um vernd barna og unglinga sem auðvitað er mikilvægt að verði endurskoðuð og lögfest. Við vitum öll að hlutverk barnaverndarnefnda hefur verið allmikið á reiki og sums staðar hafa þær nefndir átt í erfiðleikum með að vinna starf sitt svo að fullnægjandi væri. Enda tekur sú nefnd sem þetta frv. hefur samið það fram á bls. 17 í þskj. 73. Minnist nefndin sérstaklega á nauðsyn þess að lög um vernd barna og unglinga verði endurskoðuð. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við samningu frv. þessa hefur verið höfð hliðsjón af frv. til laga um vernd barna og ungmenna, sem flutt var á Alþingi 1990.`` En það frv. hefur ekki orðið að lögum enn þá. Þá er talað um málefni sem bar á góma í fsp. minni í morgun því hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sérstök ástæða er til að benda á að umboð nefndarinnar hefur ekki tekið til að semja frv. til laga um tæknifrjóvgun og þau vandamál sifjaréttareðlis sem því tengjast. Athuganir á því máli eru nú hafnar.``
    Og einnig segir í athugasemdum við frv. að sifjalaganefnd hafi heldur ekki að svo stöddu endurskoðað ættleiðingarlög, nr. 15/1978.
    Þá minnist nefndin einnig eins atriðis sem hlýtur að gleðja mitt hjarta. Hér segir að nefndin telji þörf á því að skipa sérstakan umboðsmann barna en eins og kunnugt er hef ég og fleiri ágætir hv. þm., fyrrv. og núv., þrisvar flutt frv. til laga um umboðsmann barna og hef nú gert það að þessu gefna tilefni í fjórða sinn og vænti þess að hv. þm. gefi meiri gaum að því en áður þó að frv. hafi óneitanlega fengið heldur góðar viðtökur öll árin og ágætar umsagnir. En einhvern veginn hefur það verið svo að frv. hefur ekki náð fram að ganga og eftir því sem mér hefur skilist óttuðust menn helst að það frv. mundi skarast við lög um vernd barna og ungmenna. Ég þóttist nú hafa fært að því allgóð rök að svo væri ekki á nokkurn hátt. En það frv. er reyndar á dagskrá hér í dag. Ég á ekki von á að tími gefist til að tala fyrir því í dag en það kemur að því eftir helgina, með leyfi hæstv. forseta.
    En það er margt athyglisvert í frv. þó að það sé alveg hárrétt hjá báðum ræðumönnum sem um það hafa talað að auðvitað er um flókið frv. að ræða sem þarfnast mjög nákvæmrar athugunar í þeirri nefnd sem fær það til umsagnar þó að töluvert af umsögnum liggi nú þegar fyrir. Þá vil ég enn og aftur vekja athygli á 3. gr. frv. sem bæði ég og einnig hæstv. dómsmrh. bentum á í morgun að við teldum ekki fullnægjandi en hún fjallar einmitt um þau börn sem getin eru við tæknifrjóvgun og hæstv. ráðherra viðurkenndi að það atriði væri ekki nógu skýrt og þarfnaðist kannski sérstakra laga vegna þess m.a. að orðið tæknifrjóvgun er ekki skilgreint og þannig er ekki ljóst hvort það tekur til allra þeirra aðferða sem nútímatækni hefur gefið okkur til þess að kona megi fæða barn. Og að því þarf auðvitað að huga. En hæstv. ráðherra lofaði jafnframt í morgun að hleypa nýju lífi í þá nefnd sem um þau mál er að fjalla sem eru auðvitað allflókin líka.
    Það sem á e.t.v. eftir að valda mestum umræðum í frv. er sameiginlegt forræði barna. Ég hef alltaf verið því hlynnt að báðir foreldrar eigi og skuli bera ábyrgð á barni sínu hvort sem þeir kjósa að búa saman eða ekki og ég minni hv. þingheim á að ég lagði á það mikla áherslu í mörgum umræðum um breytingu á erfðalögum þar sem oft var rætt um réttindi stjúpbarna annars vegar og sameiginlegra barna hins vegar. Það er kannski mín eðlislæga bjartsýni og trú á mannkindina að ég vil trúa því að hver sá sem verður þess valdandi að nýr einstaklingur fæðist í þennan heim hljóti, nema hann sé til þess ófær af einhverjum ástæðum, að vilja ala önn fyrir barni sínu hvað sem sambúðarformi foreldranna líður. Mér er auðvitað jafnljóst að oft er um tilfinningamál að ræða, og ekki síst við skilnað þegar annar aðilinn er mótfallinn skilnaðinum geta vitanlega komið upp einhverjar erfiðar tilfinningar en löggjafinn hlýtur að gera ráð fyrir, eins og allt þetta frv. gerir, að vernda rétt barnsins. Og barn á rétt á samskiptum við báða foreldra sína. Á því er ekki nokkur vafi. Og löggjafinn á vitanlega að vera þess hvetjandi að ungir menn meti það og skilji og vilji frá fyrstu byrjun bera þá ábyrgð, að komi til barnsfæðingar sé það skylda þeirra að taka á sig þá ábyrgð en karlmenn hafa oftast sloppið betur en móðirin, af eðlilegum ástæðum, þegar barn hefur verið getið án þess að til hjúskapar kæmi. Og þar held ég að hið háa Alþingi sé hreinlega að móta ákveðið siðgæði sem ég held að hljóti að vera æskilegt og þess vegna er ég hlynnt því að taka upp sameiginlegt forræði og mér finnst það í raun og veru sjálfsagt.
    Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. um, og ég held að það sé mjög mikilvægt atriði, að barn á líka rétt á að eiga sér samastað í tilverunni. Barn á ekki að búa á mörgum stöðum. Það á að eiga eitt lögheimili, það á að hafa sína hluti í kringum sig á einum stað, það ætti ekki að hindra að barnið gæti verið gestur á heimili hins foreldrisins, en

það á ekki að fara á milli mála hvar barnið á heima. Þetta held ég að sé afar mikilvægt því að mér er kunnugt um að þetta vafðist dálítið fyrir þeim nágrönnum okkar áður en þeir settu endanlega sín lög og eftir því sem ég hef reynt að afla mér upplýsinga um var oft ágreiningur um þetta atriði. Fólk lét börnin búa viku hjá hvoru foreldri eða hálfan mánuð hjá hvoru foreldri og það var auðvitað ótækt. Þar með var barninu ætlað að eiga tvo hópa af vinum, í raun og veru tvö heimili og það gengur auðvitað ekki. Og því held ég að nefndin hafi líka haft pata af og stuðst við og sem betur fer tekið mið af því.
    Hæstv. forseti. Það er mikið búið að tala hér í dag og ég skal ekki lengja fundinn mikið. Það mætti auðvitað hafa um þetta langt mál. Eitt atriði sem þarf líka að líta til er atvik sem bent er á á bls. 39 þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hugsanlegt er að eftir að samningur er gerður um sameiginlega forsjá milli foreldra vegna lögskilnaðar gangi t.d. konan í hjúskap. Stjúpforeldri er ásamt kynforeldri forsjármaður barns skv. 30. gr. frv. Hér er því forsjá í höndum þriggja, kynföður og kynmóður samkvæmt staðfestum samningi um sameiginlega forsjá og svo stjúpforeldris.``
    Þetta er auðvitað mál sem þarf að athuga ákaflega vel. En ég trúi því samt enn þá að milli stjúpforeldra og kynforeldra geti verið samband sem sé við hæfi sæmilega siðmenntuðu fólki og þess vegna trúi ég að slíkt geti gengið þó að auðvitað séu alltaf undantekningar og fólk láti óheppilegar tilfinningar trufla það, en þá ítreka ég aftur að það ber að gera fólki skiljanlegt að réttur barnsins á að vera ofar öllu samkvæmt þessum lögum.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki hafa orð mín miklu fleiri. En ég ítreka það að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að nú þegar verði hugað að nýju frv. til laga um vernd barna og unglinga. Það er sá geiri löggjafar okkar sem er í vandræðum með sjálfan sig og þarfnast svo sannarlega endurskipulagningar með tilliti til nýrra þjóðfélagshátta og alls þess annars sem við verðum að bregðast við.
    Eitt er það sem ég hlýt að minnast á því að allir þegnar þjóðfélagsins eiga rétt á að hið háa Alþingi gleymi þeim ekki. Nú veit ég ekki hvort það þarfnast einhverrar sérstakrar meðferðar, en hér er hvergi minnst á börn sem njóta forræðis samkynhneigðra sem tekið hafa upp á búskap við sér líka. Nú veit ég satt að segja ekki hvort það þarfnaðist einhverra sérstakra ákvæða, en ég vil samt benda á að líka sé hugað að þessum hópi. Við vitum öll að til er að tveir samkynhneigðir einstaklingar ali upp barn saman og ég veit ekki til þess að á móti því sé haft og væri kannski nauðsynlegt eins og um aðra minnihlutahópa að það sé tryggt í lögum að forræði þeirra sé ekki skert vegna fordóma á þessu sviði. Ég vil aðeins kasta þessu fram þótt ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvort hætta væri á slíku, en ekki fyndist mér það þó með öllu ótrúlegt.
    Eins og ég hyggst koma að síðar og ég ætlaði að minnast á í morgun þegar málefni um tæknifrjóvgun voru rædd er það enn svo að einstæð, einhleyp kona fær ekki tæknifrjóvgun. Nú er það svo að fjölmargar konur í þjóðfélagi okkar eru vel menntaðar og á háum launum og eiga góð híbýli og eru fullfærar um að ala upp börn einar og gera það raunar í hundraða tali, en með þeim rökum að barnið eigi rétt á föður hefur því tæknifrjóvgun verið synjað hingað til. Ég bið hv. formann allshn. sem hér situr, hv. 6. þm. Reykv., að taka svona mál til athugunar líka. Þegar verið er að semja vönduð lög og mikinn bálk er auðvitað sjálfsagt að girða fyrir að nokkurt misrétti eigi sér stað.
    Ég man nú ekki í svipinn eftir fleiri atriðum sem ég ætlaði að tala um en ég vil lýsa ánægju minni með að hér hafa í dag verið á dagskrá ein þrjú mál sem varða réttindi barnanna í þjóðfélaginu og er mál til komið í öllum efnahagsumræðum þessa hausts, því að þegar öllu er á botninn hvolft, hæstv. forseti, hygg ég að eini fjársjóðurinn sem við eigum sem mark er á takandi séu börnin í þessu landi því að þau eru þeir þjóðfélagsþegnar sem taka við því þjóðfélagi sem við höfum búið þeim.