Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:38:00 (1205)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Hinn 12. mars 1991 samþykkti hið háa Alþingi þáltill. hv. 5. þm. Reykv. Inga Björns Albertssonar og varð ályktunin svohljóðandi eftir afgreiðslu hv. allshn.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Í lánsfjárlögum 1991 var heimild til handa fjmrh. til að ráðstafa 100 millj. í þessu skyni. Sérstakri nefnd embættismanna og forsvarsmanna Landhelgisgæslunnar var falið að skila skýrslu um málið enda fóru þeir utan í því skyni að skoða hentugan þyrlukost.
    Ég hygg að það hafi verið svo með marga hv. þm. að við töldum að þetta mál væri þar með komið vel á rekspöl. En síðan gerðist það að ný hæstv. ríkisstjórn tók við völdum og eftir það tók málið óneitanlega stefnubreytingu. Ný nefnd var skipuð og við framlagningu fjárlagafrv. var ekki að sjá að neitt væri ætlað til kaupa á þyrlu. Ég lagði því fram fsp. á hinu háa Alþingi 17. okt. sl. sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvað líður undirbúningi á kaupum á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna sem samþykkt voru með ályktun Alþingis 12. mars 1991?``
    Í svari hæstv. dómsmrh. kom fram að áhersla væri fyrst og fremst lögð á að hefja viðræður við varnarliðið en kaupum á þyrlu frestað.
    Hæstv. forseti. Á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan fsp. minni var svarað hefur orðið hörmulegur mannskaði í sjóslysi hér í nágrenninu. Öll íslenska þjóðin syrgir með þeim sem um sárast eiga nú að binda. Atburður sem þessi hlýtur að krefjast þess að hið háa Alþingi svari því hvort við það verði búið að ekki séu tiltæk nauðsynleg björgunartæki sem e.t.v., og um það getur auðvitað enginn sagt, en e.t.v. hefðu getað komið að gagni í tilviki sem þessu. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurningar:
    Hefur ríkisstjórnin endurskoðað afstöðu sína til kaupa á björgunarþyrlu sem búin væri þeim tæknibúnaði sem best hentar aðstæðum hér á landi og á höfunum í kringum okkur?