Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:52:00 (1210)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er leitt að þurfa að ræða þetta mál í skugga þeirra hörmulegu atburða sem urðu við Grindavík fyrir helgina. Þeir hafa orðið til þess að enn á ný er knúið á um að ákvörðun verði tekin um kaup á björgunarþyrlu fyrir Íslendinga.
    Í gildandi lögum eru allar heimildir sem ríkisstjórnin þarf til að taka þá ákvörðun. Alþingi hefur þegar samþykkt að ríkisstjórn Íslands eigi að kaupa björgunarþyrlu fyrir Íslendinga á yfirstandandi ári, 1991. Því miður verð ég að segja það að sú lýsing sem hæstv. dómsmrh. gaf á vinnunni að þessu máli er röng. Hún er því miður röng. Orð hans um skyndikönnun og það hafi þurft að athuga málið nánar þegar núv. ríkisstjórn settist á valdastóla er röng. Ég tel því óhjákvæmilegt að greina frá því að 13. mars, þegar Alþingi var lokið, hélt ég sem fjmrh. fund í dómsmrn. með dómsmrh., embættismönnum dómsmrn., fjmrn. og Landhelgisgæslunnar. Þar var sú ákvörðun tilkynnt að nefnd yrði sett upp með embættismönnum þessara tveggja ráðuneyta og Landhelgisgæslunnar til að gera tillögur um hvaða þyrlutegund yrði keypt. Í framhaldi af því, 2. apríl til 11. apríl, fór sérfræðinga- og embættismannanefnd til Bandaríkjanna, til Frakklands og til Noregs til að vinna að málinu. Hún fór rækilega yfir eftirfarandi tegundir af þyrlum, Jayhawk-þyrlur, Super Puma þyrlur, Super Transport þyrlur og þyrlur framleiddar af Westland í Bandaríkjunum.
    Hinn 15. apríl var skilað formlegri niðurstöðu til Landhelgisgæslunnar og síðan til ráðuneytanna og niðurstaða þessarar skýrslu er alveg ótvíræð. Þar er formlega --- og ég legg áherslu á það --- þar er formlega lagt til að keypt verði franska þyrlan AS 332 L1, sem kölluð er Super Puma og það er rækilega rökstutt í þessari greinargerð hvers vegna þessi tegund ein hentar íslenskum aðstæðum. Það hefur jafnframt komið fram að sérfræðingar Landhelgisgæslunnar telja að þyrlutegundir bandaríska hersins henti á engan hátt íslenskum aðstæðum í þessum efnum. Vegna þess að hæstv. dómsmrh. hefur því miður notað orðið skyndikönnun um þessa vinnu mun ég síðar í dag birta almenningi í landinu þessa skýrslu þannig að alveg liggi ljóst fyrir hver niðurstaðan var því að þegar núv. ríkisstjórn kom í ráðuneytin var búið að vinna þá vinnu sem þurfti að vinna. Ríkisstjórnin kaus því miður að drepa málinu á dreif, setja það í nýjan farveg, tefja það og fara að tengja það viðræðum við bandaríska herinn sem Landhelgisgæslan hafði hafnað.