Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:56:00 (1211)

     Árni M. Mathiesen :
     Virðulegi forseti. Eftir þær umræður, sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu undanfarna daga, á Alþingi í dag og á Alþingi sl. vetur, leyfi ég mér að ganga út frá því að ný björgunarþyrla verði keypt án tafa. En við þurfum að gera meira. Við þurfum að treysta skipulag og boðleiðir í björgunarsveitakerfi okkar. Við verðum að tryggja að þau tæki sem við eigum í dag og þau tæki sem við munum eignast og þau tæki sem við höfum aðgang að nýtist á sem bestan hátt og tryggi öryggi sjómanna okkar.
    Hið hörmulega slys sem varð við Hópsnes nú fyrir helgi hefur dregið verulega úr öryggistilfinningu sjómanna okkar. Og ekki verður við það unað að þeir gangi kvíðnir til verks og ástvinir þeirra bíði kvíðnir í landi. Því treysti ég því að dómsmrh. og ríkisstjórnin geri viðeigandi ráðstafanir til að auka það öryggi og þá öryggistilfinningu sem sjómenn hafa og að ástvinir þeirra í landi geti sofið eins rólegir og mögulegt er við aðstæður sem þessar.