Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:58:00 (1212)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir, sem hafa talað votta aðstandendum samúð mína og reyndar Grindvíkingum öllum og þjóðinni allri.
    Ég verð að segja í upphafi máls míns að ég varð afar óánægður með svör ráðherranna beggja. Það má vel vera að ég sé barnalegur en ég trúði því og ég ætla að halda áfram að trúa því þangað til annað kemur í ljós að þessir menn kæmu upp núna og segðu:

Nú verður stóra skrefið stigið. Við tökum ákvörðun, við förum í viðræður við framleiðendur og við gerum kaupsamning um nýja björgunarþyrlu.
    Nei, ekki aldeilis. Hvað kom? Við ætlum að halda áfram á sömu braut. Og ég spyr bara: Hvað þarf eiginlega til? Hvað þarf til? Það eru allar heimildir til staðar. Það er ekkert annað en ganga fram og klára málið. Nei. Það á að halda áfram á sömu braut. Ég fordæmi þetta. Ekki bara í ljósi síðustu atburða, heldur þess sem getur gerst í framtíðinni. Og ég segi: Við eigum að ganga fram og stíga skrefið og í millitíðinni eigum við að leigja þyrlu sem brúar bilið. Það tekur tvö ár að koma nýrri þyrlu í þjónustu og meðan þau tvö ár eru að líða eigum við að leigja þyrlu til að brúa bilið. Það er engin spurning.
    Menn hafa talað um kostnað og það hefur gjarnan verið lagt út sem svo að það eigi að borga eitt stykki þyrlu á borðið, einn milljarð er oft talað um. Ný þyrla kostar væntanlega um 700--800 millj. og mun greiðast á níu til þrettán árum. Menn geta bara deilt í þá tölu og fengið gróflega út greiðslubyrði þjóðfélagsins. Það er ekki verið að tala um íþyngingu, alls ekki. Og fyrstu greiðslur mundu þar að auki væntanlega ekki fara fram fyrr en eftir þrjú ár þannig að það er ekkert sem stoppar okkur í þessu máli. Eina sem þarf er raunverulegur vilji.
    Ég hef, hæstv. forseti, eins og þingheimur veit, undirbúið frv., sem væntanlega verður dreift nú eftir nokkrar mínútur, um að binda í lög --- það er hart að þurfa að gera það, en vegna þess að vilji Alþingis hefur ekki verið virtur vil ég binda í lög að þyrlan verði keypt á næsta ári. Það er óumflýjanlegt og ég bið hæstv. forseta að sjá til þess að þetta frv. megi komast á dagskrá strax í þessari viku og hljóta skjótan gang í gegnum þingið. (Lófatak á áheyrendapöllum.)